Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Íþróttir

Njarðvíkingar sneru leiknum sér í hag í seinni hálfleik
Mario Matasovic átti stórfínan leik og gerði 23 stig auk þess að taka ellefu fráköst, hann var með 31 framlagspunkta í kvöld. VF-myndir: JPK
Jóhann Páll Kristbjörnsson
Jóhann Páll Kristbjörnsson skrifar
fimmtudaginn 18. nóvember 2021 kl. 23:26

Njarðvíkingar sneru leiknum sér í hag í seinni hálfleik

Leikir hófust að nýju í Subway-deild karla í körfuknattleik í kvöld eftir hlé vegna landsleikja. Topplið Grindavíkur mætti botnliði Vestra á Ísafirði og mátti sætta sig við tap. Eftir þrjá tapleiki í röð sneru Njarðvíkingar hins vegar dæminu við og unnu góðan seiglusigur á Blikum í Ljónagryfjunni.

Njarðvík - Breiðablik 110:105

(25:31, 31:32, 30:17, 24:25)

Eftir góða byrjun á Íslandsmótinu hafa Njarðvíkingar gefið aðeins eftir og það var hörkuleikur milli þeirra og Blika í Ljónagryfjunni í kvöld.

Sóknarleikur Breiðabliks er mjög hraður og tempóið í leikjum þeirra verður alltaf mjög hátt. Blikar byrjuðu betur og náðu ágætis forskoti og leiddu með sjö stigum í hálfleik (56:63).

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Njarðvíkingar mættu mikið ákveðnari til leiks í þriðja leikhluta, tóku öll völd á vellinum og sneru leiknum sér í vil. Staðan fyrir síðasta leikhlutann var orðin 86:80 Njarðvík í vil og heimamenn litu ekki til baka eftir það.

Njarðvíkingar stigu upp í seinni hálfleik og sneru við sínu gengi sem hefur ekki verið eins og flestir höfðu búist við í síðustu leikjum. Nicolas Richotti sýndi hvers hann er megnugur en hann hefur ekki verið að sýna það mikið að undanförnu. Þá átti Veigar Páll Alexanderson fínan leik og Maciek Baginski minnti á sig með sextán stig og fjögur fráköst.

Veigar Páll búinn að stela boltanum og setur hann í körfuna við litla hrifningu bekks Blikanna.

Karfan.is tók viðtal við Veigar Pál eftir leik sem má sjá í spilaranum hér að neðan.

Frammistaða Njarðvíkinga: Nicolas Richotti 23/5 fráköst/6 stoðsendingar, Mario Matasovic 23/11 fráköst, Fotios Lampropoulos 19/8 fráköst, Maciek Stanislav Baginski 16/4 fráköst, Veigar Páll  Alexandersson 14/4 fráköst, Dedrick Deon Basile 12/5 fráköst/10 stoðsendingar, Ólafur Helgi Jónsson 3, Jan Baginski 0, Bergvin Einir Stefánsson 0, Rafn Edgar Sigmarsson 0, Elías Bjarki Pálsson 0, Snjólfur Marel Stefánsson 0.

Jóhann Páll Kristbjörnsson, ljósmyndari Víkurfrétta, var í Ljónagryfjunni í kvöld og má sjá myndasafn úr leiknum neðst á síðunni.


Vestri - Grindavík 86:71

(25:17, 15:19, 26:27, 20:8)

Gengi Grindavíkur og Vestra hefur verið alger andstæða á tímabilinu, Grindavík hafði unnið alla sína leiki nema einn fyrir leikinn í kvöld en Vestri tapað öllum nema einum.

Það voru hins vegar Vestramenn sem voru ákveðnir að snúa hlutunum sér í hag. Vestri náði átta stiga forystu í fyrsta leikhluta en Grindvíkingar söxuðu hana niður í fjögur fyrir hálfleik (40:36). Áfram héldu Grindvíkingar að elta í þriðja leikhluta og höfðu náð mismuninin niður í þrjú stig þegar fjórði leikhluti fór í gang (66:63).

Grindvíkingar komust yfir snemma í fjórða leikhluta (67:69) en Vestramenn settu niður þrist í kjölfarið til að komast aftur í forystu og bættu við tveimur til viðbótar (72:69). Grindvíkingar náðu að minnka muninn í eitt stig en þá lokuðu Ísfirðingar sjoppunni og Grindavík skoraði ekki stig í þær rúmlega fimm mínútur sem eftir lifðu á meðan Vestri gerði fjórtán stig og innsiglaði örlög Grindvíkinga í kvöld sem gerðu aðeins átta stig í lokaleikhlutanum.

Naor Sharabani hefur sennilega ekki sáttur við leik sinna manna í kvöld, hann var með fjórtán stig, tíu fráköst og tíu stoðsendingar í kvöld.

Frammistaða Grindvíkinga: Elbert Clark Matthews 19/5 fráköst, Ivan Aurrecoechea Alcolado 18/14 fráköst, Naor Sharabani 14/10 fráköst/10 stoðsendingar, Kristinn Pálsson 9/8 fráköst, Björgvin Hafþór Ríkharðsson 6/4 fráköst, Ólafur Ólafsson 5/5 fráköst, Hafliði Ottó Róbertsson 0, Kristófer Breki Gylfason 0, Magnús Engill Valgeirsson 0.

Njarðvík - Breiðablik (110:105) | Subway-deild karla 18. nóvember 2021

Tengdar fréttir