Njarðvíkingar slá ekkert af – Grindavík og Keflavík skiptu með sér stigunum
Njarðvíkingar tóku á móti Þór frá Akureyri í Lengjudeild karla í knattspyrnu í gær en bæði lið voru taplaus fyrir leikinn. Njarðvíkingar sem unnu stórsigur og styrktu stöðu sína á toppi deildarinnar. Þá skildu Keflavík og Grindavík jöfn í Safamýri.
Í annarri deild gerður Reynismenn jafntefli við Víkinga frá Ólafsvík en Þróttarar guldu afhroð á Selfossi. Þá tapaði RB enn einum leiknum í fjórðu deildinni þegar KÁ mætti í Nettóhöllina.
Njarðvík - Þór 5:1
Njarðvíkingar hafa hreinlega farið á kostum í Lengjudeildinni í ár og héldu því áfram í gær þegar Þórsarar frá Akureyri komu í heimsókn.
Dominic Radic opnaði markareikninginn snemma þegar hann stal boltanum af markverði Þórs og kom Njarðvík yfir (3').
Kaj Leo Í Bartalstovu jók muninn í 2:0 á 21. mínútu eftir skyndisókn Njarðvíkinga og stoðsendingu frá Radic.
Staðan 2:0 í hálfleik og leikurinn verið frekar tíðindalítill nema bæði lið sönkuðu að sér gulum spjöldum. Alls voru spjöldin tíu og þar höfðu Njarðvíkingar einnig betur, sex gul spjöld gegn fjórum gestanna.
Gestirnir minnkuðu muninn í eitt mark þegar þeir komust inn í seningu og sóttu hratt. Boltinn barst að lokum til Birkis Heimissonar sem skoraði örugglega framhjá Aroni Snæ Friðrikssyni í marki heimamanna (62').
Korteri síðar jók Oumar Diouck muninn á ný í tvö mörk (77') og Freysteinn Ingi Guðnason (90'+1) og Douck (90'+3) bættu sitt hvoru markinu við í uppbótartíma.
Stórsigur heimamanna sem siitja sem fastast á toppi deildarinnar.
Grindavík - Keflavík 2:2
Stefán Jón Friðriksson kom Keflavík yfir á 18. mínútu en Kwame Quee jafnaði leikinn á þeirri 34.
Í uppbótartíma fyrri hálfleiks fengu Keflvíkingar hornspyrnu. Ari Steinn Guðmundsson sendi boltann inn fyrir mark Grindavíkur þar sem Ingólfur Hávarðarson, markvörður Grindavíkur, fer upp gegn Mamadou Diaw í boltann og reynir að kýla hann burt en boltinn hrekkur af hnefanum og í markið (45'+1).
Bæði lið fengu ágætis færi til að bæta við mörkum í seinni hálfleik en þó voru gestirnir öllu líklegri. Dagur Ingi Hammer Gunnarsson skoraði hins vegar lokamarkið þegar stutt var til leiksloka (86') og tryggði þar með Grindavík enn eitt jafnteflið.
Reynir - Víkingur Ó. 1:1
Moussa Ismael Sidibe Brou kom Reynismönnum í forystu seint í fyrri hálfleik (36') en gestirnir náðu inn jöfnunarmarki í uppbótartíma (90'+2).
Reynismenn sitja í þriðja neðsta sæti með fjögur stig.
Selfoss - Þróttur 6:1
Það var hreint ótrúlegur viðsnúningur í leik Selfoss og Þróttar í gær en Þróttarar leiddu í hálfeik með marki Guðna Sigþórssonar á fyrstu mínútu leiksins.
Á korters kafla í þeim seinni skoruðu heimamenn hvorki fleiri né færri en fjögur mörk (51', 53', 62' og 66') og þeir áttu eftir að bæta því fimmta (71') og sjötta (82') við áður en leikurinn var allur.
Þróttur er í níunda sæti með fjögur stig eins og Reynir.
RB - KÁ 2:5
RB náði tveggja marka forystu með mörkum Sveins Andra Sigurpálssonar (10') og Gabriel Simon Inserte (13') en gestirnir minnkuðu muninn á 22. mínútu.
KÁ reyndist töluvert sterkari í seinni hálfleik og skoraði fjögur mörk til að gera út um leikinn (64', 69', 90' og 90'+5).
RB og KFS sitja á botni deildarinnar eftir að hafa bæði tapað fimm fyrstu leikjunum.
Leiki Njarðvíkur og Þórs og Grindvíkinga og Keflavík má sjá í spilurum hér að neðan.