Njarðvíkingar sigruðu toppliðið
Njarðvík sigraði topplið Grindavíkur, 99:94, í nágrannaslag kvöldsins í Intersport-deildinni í körfuknattleik. Heimamenn í UMFN höfðu yfirhöndina allan leikinn og var allt annað að sjá til liðsins miðað við undanfarna leiki. Nýr leikmaður Njarðvíkinga, Gregory Harris, kom sterkur inn en hann skoraði 21 stig en Teitur Örlygsson og Páll Kristinsson gerðu það einnig. Darrell Lewis var með 27 og Guðlaugur Eyjófsson 26 fyrir Grindavík.Gaman var að sjá hve áhorfendur lifðu sig inn í leikinn en fjölmenni var í Njarðvíkurstúkunni og hvöttu þeir sína menn til dáða. Grindvíkingar sem hefðu getað tryggt sér deildarmeistaratitilinn í kvöld verða því að bíða um sinn en þeir mega þó lítið mistíga sig því Keflavík og KR sækja fast á hæla þeirra.