Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Íþróttir

Miðvikudagur 20. mars 2002 kl. 22:40

Njarðvíkingar sigruðu í skemmtilegum leik

Njarðvíkingar sigruðu Breiðablik 99:92 í 8-liða úrslitum Epson-deildarinnar í körfubolta í kvöld en staðan í hálfleik var 42:39. Brenton Birmingham var bestur í liði Njarðvíkinga með 28 stig.

Leikurinn byrjaði mjög fjörlega og það var greinilegt á upphafsmínútum leiksins að bæði lið ætluðu sér áfram í keppninni. Njarðvíkingar höfðu þó alltaf örlítið forskot en það var aldrei mikið til að byrja með. Eftir 1. leikhluta var staðan 25:17 en í 2. leikhluta komu Blikar mjög grimmir til leiks og náðu að minnka muninn niður í tvö stig 31:29. Leikurinn var jafn það sem eftir lifði hálfleiknum og staðan að honum loknum var 42:39.
Þegar í seinni hálfleikinn var komið byrjuðu Njarðvíkingar betur og virtust ætla að klára leikinn. Þeir komust í 52:44 og svo í 60:47. Blikar voru þó ekki á þeim buxunum að gefast upp og héldu áfram að berjast sem varð til þess að Ísak leikmaður þeirra þurfti að yfirgefa völlinn með fimm villur. Að loknum 3. leikhluta var staðan 71:61 og leit út fyrir jafnan 4. leikhluta.
Síðasti leikhlutinn var í raun eign heimamanna því þeir kafsigldu gestina með þriggjastiga skotum og komust á skömmum tíma í 83:68 og svo í 89:72 þar sem Teitur Örlygsson og Brenton Birmingham voru mjög sterkir. Þarna má segja að leikurinn hafi verið búinn því Njarðvíkingar settu varamennina inná og þá náðu Blikar að klóra í bakkann en þó aldrei þannig að einhver hætta væri á sigri heimamanna.
Leikurinn endaði 99:92 og þar með eru Njarðvíkingar komnir í 4-liða úrslit þar sem þeir mæta KR-ingum en í hinum leiknum mætast Keflavík og Grindavík.
Blikar eiga hrós skilið fyrir sinn leik því þeir spiluðu vel og börðust eins og hundar en það nægði ekki því Njarðvíkingar eru með betra lið og unnu verðskuldað.
Mikil stemmning fylgdi Blikum og mættu fleirri lið taka þá til fyrirmyndar enda stóðu áhorfendur vel á bak við sitt lið og klöppuðu mikið fyrir þeim í lok leiks.
Brenton Birmingham var bestur í liði Njarðvíkinga með 28 stig, Logi Gunnarsson kom næstur með 22 stig, Teitur Örlygsson var með 13 stig en aðrir voru með minna.
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024