Njarðvíkingar munu ekki borga leikmönnum laun
Njarðvíkingar standa núna á krossgötum. Körfuknattleikslið félagsins hefur orðið fyrir mikilli blóðtöku þar sem máttarstólpar liðsins síðasta áratuginn eða svo hafa lagt skóna á hilluna. Leikmenn eins og Brenton Birmingham, Páll Kristinsson og Friðrik Stefánsson sem hafa fagnað titlum með liðinu og verið meðal bestu leikmanna úrvalsdeildarinnar síðan um aldamótin eru hættir að stunda íþróttina. Leikmenn eins og Jóhann Árni Ólafsson, Guðmundur Jónsson, Kristján Sigurðsson og Egill Jónasson hafa leitað annað. Félagið hefur tekið þann pól í hæðina að notast eingöngu við unga og óreynda leikmenn sem uppaldir eru hjá félaginu en einnig hafa þeir þegar ráðið til sín tvo erlenda leikmenn en þeir erlendu leikmenn sem léku með liðinu í fyrra munu ekki snúa aftur.
„Það eru ákveðin tímamót hjá Njarðvíkingum núna. Nýja stjórnin sem tók við núna í febrúar fór af stað með ákveðin markmið og ákveðna hugsjón og hafa hugsað sér að fara ákveðna leið í þessu. Sú leið hentar kannski ekki öllum,“ segir Jón Júlíus Árnason formaður körfuknattleiksdeildar UMFN.
„Við munum ekki koma til með að borga leikmönnum okkar laun, menn fá leikmannasaminga en engin laun verða greidd. Við vissum svo sem að þegar þessi stefna var tekin yrðu einhver brottföll þó svo að við hefðum vonast til þess að halda sem flestum leikmönnum. Við ætlum okkur hins vegar að setja boltann í hendurnar á ungu strákunum úr unglinga- og drengjaflokk.Markmiðin eru alltaf sú sömu, við höfum það mikla trú á þessum ungu strákum,“ segir Jón Júlíus en ítarlegt viðtal við formanninn mun birtast í Víkurfréttum á morgun.