Njarðvíkingar með enn einn sigurinn
Njarðvíkingar tóku á móti Val í Subway-deild karla í körfuknattleik í Ljónagryfjunni í gær. Eftir jafnan fyrsta leikhluta má segja að Njarðvíkingar hafi hafið sig til flugs og hrósuðu 26 stiga sigri að lokum. Keflavík sótti ÍR heim á fimmtudag og þurftu ekki að hafa mikið fyrir sigri gegn andlausu liði Breiðhyltinga.
Njarðvík - Valur 96:70
(17:16, 26:17, 20:17, 33:20)
Leikurinn var frekar jafn í byrjun en eftir að Valsmenn komust í sjö stiga forystu (5:12) tóku Njarðvíkingar til sinna ráða og sneru dæminu við. Aðeins munaði einu stigi á liðunum eftir leikhlutann (17:16) Njarðvík í vil.
Njarðvíkingar juku forskotið jafn og þétt og höfðu tíu stiga forystu þegar gengið var til hálfleiks. Heimamenn voru skrefinu á undan Valsmönnum allan leikinn en það var ekki fyrr en í síðasta leikhluta að sókn Njarðvíkinga setti í fluggírinn og gerði út um leikinn, skoruðu 33 stig gegn tuttugu stigum gestanna.
Sóknarleikur Njarðvíkinga hefur verið góður á tímabilinu og hefur liðið gert að meðaltali 104 stig í leik, varnarleikurinn var til fyrirmyndar og að halda Val í 70 stigum hlýtur að teljast nokkuð gott. Ólafur Helgi Jónsson átti stórgóða innkomu af bekknum en hann skoraði ellefu stig og tók þrjú fráköst.
Frammistaða Njarðvíkinga: Fotios Lampropoulos 20/13 fráköst, Nicolas Richotti 19/5 fráköst/5 stoðsendingar, Mario Matasovic 16/4 fráköst, Dedrick Deon Basile 15/6 fráköst/8 stoðsendingar, Ólafur Helgi Jónsson 11, Logi Gunnarsson 8, Veigar Páll Alexandersson 4, Snjólfur Marel Stefánsson 3, Bergvin Einir Stefánsson 0, Elías Bjarki Pálsson 0, Rafn Edgar Sigmarsson 0.
ÍR - Keflavík (73:89)
(12:22, 16:29, 21:15, 24:23)
Keflvíkingar sóttu ÍR heim á fimmtudag og lentu ekki í vandræðum með slaka Breiðhyltinga. Frá fyrsta leikhluta var útséð í hvað stefndi og munaði 23 stigum á liðunum í hálfleik (28:51).
ÍR sóttu í sig veðrið í þriðja leikhluta og minnkuðu muninn í sautján stig (49:66) en Keflvíkingar höfðu fulla stjórn á aðstæðum og lönduðu öruggum sigri.