Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Íþróttir

Njarðvíkingar með bakið upp að vegg eftir tap í framlengingu
Dwayne Lautie-Ogunleye átti síðasta skotið en það geigaði. VF/JPK
Jóhann Páll Kristbjörnsson
Jóhann Páll Kristbjörnsson skrifar
fimmtudaginn 18. apríl 2024 kl. 22:46

Njarðvíkingar með bakið upp að vegg eftir tap í framlengingu

Það var boðið upp á mikil átök og spennu í þriðja leik Njarðvíkur og Þórs í átta liða úrslitum Subway-deildar karla í körfuknattleik sem fór fram í Ljónagryfjunni í kvöld. Eftir fjóra leikhluta var allt hnífjafnt (100:100) og því þurfti að grípa til framlengingar þar sem gestirnir höfðu betur.

Njarðvík - Þór Þorlákshöfn 107:110

(24:31 | 38:22 | 17:30 | 2:17 | 7:10)

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Þórsarar byrjuðu leikinn betur og höfðu sjö stiga forskot eftir fyrsta leikhluta (24:31)

Í öðrum leikhluta gekk hins vegar flest Njarðvíkingum í hag og tólf stig frá Veigari Alexanderssyni og þrír þristar frá Maciej Baginski voru drjúg en Njarðvíkingar skoruðu 38 stig í öðrum leikhluta og voru með níu stiga forystu í hálfleik (62:53).

Liðin skiptust aftur á forystunni í þriðja leikhluta og Þór hafði fjögur stig á heimamenn þegar fjórði leikhluti hófst (79:83). Þórsarar héldu sínu forskoti í tæpar fjórar mínútur en þá jafnaði Veigar metin með góðum þristi (89:89). Njarðvík náði samt ekki að komast yfir og gestirnir juku muninn í fjögur stig á ný (91:95). Veigar setti mikilvægar körfur í seinni hálfleik og hann jafnaði leikinn í 98:98 þegar rúm hálf mínúta var til leiksloka. Gestirnir nýttu sína sókn og tóku forystu á ný (98:100) og Njarðvík hafði nítján sekúndur til að jafna.

Chaz Williams mistókst sniðskot en Veigar Alexandersson náði frákastinu og sendi á Dominykas Milka sem jafnaði í þann mund sem flautan gall. Staðan 100:100 og blóðþrýstingur áhorfenda orðinn hættulega hár.

Það voru hafðar góðar gætur á Dominykas Milka í lok framlengingar enda var hann illviðráðanlegur og stigahæstur í liði Njarðvíkur.

Milka kom Njarðvík yfir í upphafi framlengingar en Þórsarar jöfnuðu nær samstundis og tóku svo forystuna á nýjan leik. Þeir létu hana ekki frá sér og tóku sigurinn með sér í veganesti til Þorlákshafnar þar sem þeir geta mögulega sent Njarðvíkinga í sumarfrí í næsta leik.

Stig Njarðvíkur: Dominykas Milka 29 stig, Chaz Williams 23 stig, Veigar Alexandersson 18 stig, Maciej Baginski 13 stig, Dwayne Lautier-Ogunleye 9 stig, Þorvaldur Orri Árnason 9 stig og Mario Matasovic 6 stig.