Njarðvíkingar kvöddu niður KR grýluna
Njarðvíkingar eru komnir í undanúrslit Lýsingarbikars karla í körfuknattleik eftir 106-90 heimasigur á KR í kvöld. Njarðvíkingar voru ávallt skrefinu á undan og hafa nú gert 245 stig í síðustu tveimur heimaleikjum og virðast óðum að vera að finna sitt fyrra form. Heimamenn hleyptu Íslandsmeisturum KR aldrei nærri og fögnuðu gríðarlega þessum sigri sínum þar sem grænir hafa mátt láta í minni pokann gegn KR í síðustu leikjum.
Það blés ekki byrlega fyrir heimamenn í upphafi leiks þar sem þeir Damon Bailey og Egill Jónsson fengu báðir snemma leiks tvær villur. Spennustigið var hátt og þá kann Sverrir Þór Sverrisson vel við sig en hann lék frábærlega á báðum endum vallarins og lét Avi Fogel hafa vel fyrir hlutunum í kvöld. Magnaðar upphafsmínútur Njarðvíkinga skiluð þeim stöðunni 21-8 en Íslandsmeistararnir gerðu vel og minnkuðu muninn í 26-18 og þannig stóðu leikar eftir fyrsta leikhluta.
Í öðrum leikhluta brugðu KR-ingar á það ráð að fara í svæðisvörn sem skilaði ekki tilsettum árangri. Njarðvíkingar leiddu 52-42 í leikhléi og var Damon Bailey kominn með 14 stig hjá Njarðvík en Joshua Helm með 12 hjá KR.
Njarðvíkingar lögðu traustan grunn að sigri sínum í kvöld í þriðja leikhluta. Gestirnir komust ansi nærri heimamönnum í þessum leikhluta en ávallt þegar þeir nálguðust þá bættu Njarðvíkingar við sig snúning og höfðu yfir 77-60 fyrir fjórða og síðasta leikhlutann. Lokakarfan í þriðja leikhluta var glæsileg þar sem miðherjinn Egill Jónsson fékk góða sendingu inn í teig frá Jóhanni Árna Ólafssyni og Egill þakkaði fyrir sig með því að troða aftur á bak í körfuna. 17 stig munur fyrir fjórða leikhluta og fátt ef nokkuð sem benti til þess að KR ætti sér viðreisn vonar.
Strax í upphafi fjórða leikhluta fékk Egill Jónasson sína fimmtu villu í Njarðvíkurliðinu og óhætt er að segja að hann hafi ekki verið innundir hjá dómurum leiksins í kvöld. Egill varði hvert skotið á fætur öðru en dómarar leiksins töldu hann oft gerast brotlegan og því varð miðherjinn stóri að halda á bekkinn.
Avi Fogel minnkaði muninn í 77-65 með þriggja stiga körfu fyrir KR en sama hvað gestirnir reyndu þá áttu Njarðvíkingar ávallt svar. Skömmu síðar kom Hörður Axel Vilhjálmsson Njarðvíkingum í 82-65 með gegnumbroti og fékk hann vítaskot að auki sem hann setti niður.
Heimamenn kláruðu leikinn svo af miklu öryggi 106-90 og fengu uppreisn æru undan KR grýlunni sinni sem hefur plagað Njarðvíkinga síðan á vormánuðum 2007.
Tölfræði leiksins er enn ókomin en í Njarðvíkurliðinu voru þeir Damon Bailey og Brenton Birmingham sterkir sem og Sverrir Þór Sverrisson en mest bar á þeim Avi Fogel og Joshua Helm í liði KR.
Gangur leiksins:
4-6, 21-8, 26-18
28-21, 39-28, 52-42
61-48, 67-56, 77-60
77-65, 84-74, 106-90