Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Íþróttir

Njarðvíkingar komnir með tvo erlenda leikmenn
Sunnudagur 29. maí 2011 kl. 19:06

Njarðvíkingar komnir með tvo erlenda leikmenn

Karlalið Njarðvíkur í körfubolta hefur samið við tvo Bandaríkjamenn fyrir komandi tímabil en samningar þess efnis voru undirritaðir á dögunum. Myndin á Njarðvíkurliðinu er öll að skýrast en ljóst er að breytingarnar eru gríðarlegar og 10 af 12 leikmönnum liðsins í leikjunum gegn KR í úrslitakeppninni munu ekki leika með liðinu á komandi vetri. Erlendu leikmennirnir þrír koma ekki aftur og þá eru Brenton Birmingham, Friðrik Stefánsson og Páll Kristinsson hættir eftir flottan feril. Guðmundur Jónsson gekk til liðs við Þór Þorlákshöfn, Jóhann Árni Ólafsson samdi við Grindavík, og þá hafa þeir Egill Jónasson og Kristján Sigurðsson einnig sagt skilið við liðið. Frá þessu er greint á heimasíðu félagsins umfn.is.

Travis Holmes er bakvörður, fæddur 1986. Hann lék með VMI háskólanum sem er í 1.deild NCAA á árunum 2005 til 2009. Hann var með 19,1 stig á leik á lokaárinu en tók auk þess 6,1 frákast, gaf 4,3 stoðsendingar og stal 3,2 boltum. Holmes er 193 cm á hæð og þykir sérlega öflugur varnarmaður. Hann kom aðeins við í D-league tímabilið 2009 til 2010 en var án samnings sl vetur.
Holmes er tvíburi, en Chavis bróðir hans var stigahæstur í liði VMI árið 2009 með 23 stig á leik og hefur síðan leikið bæði í LEB gold á Spáni við góðan orðstír og sl vetur lék hann í Mexíkó en hann var einnig í D-league í millitíðinni.

Chris Sprinker er svo ætlað að leysa miðherjahlutverkið í Njarðvíkurliðinu á komandi vetri. Hann er fæddur árið 1988 og útskrifaðist í vor úr Central Washington skólanum sem er í 2.deild NCAA háskólaboltans. Sprinker er 205 cm á hæð og rúmlega 100 kg, en þessi strákur er mjög hreyfanlegur og mikill íþróttamaður. Skólinn hans stóð sig vel í vetur og vann riðilinn sinn og þeir unnu 26 af 30 leikjum vetrarins. Sprinker skoraði 13,2 stig á leik, tók 5,1 frákast og varði 2 skot á leik.

Leikmennirnir eru væntanlegir þegar nær dregur hausti og félagið bindur að sjálfsögðu vonir við að þeir verði ungu Njarðvíkurliði öflugur liðsauki.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024