Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Íþróttir

Laugardagur 13. apríl 2002 kl. 17:55

Njarðvíkingar komnir með aðra höndina á titilinn

Njarðvíkingar sigruðu Keflvíkinga 96:88 í 2. leik liðanna í úrslitum um Íslandsmeistaratitilinn í körfuknattleik. Staðan í hálfleik var 44:57 Keflvíkingum í vil. Njarðvíkingar eru því með pálmann í höndunum, leiða einvígið 2-0 og þurfa aðeins að sigra einn leik í viðbót til að tryggja sér titilinn.

Leikurinn fór vel af stað og greinilegt að bæði lið ætluðu að selja sig dýrt. Gunnar Einarsson byrjaði vel fyrir gestina og skoraði duglega. Keflvíkingar voru að spila góða vörn en það varð þó til þess að Damon Johnson og Jón Hafsteinsson fóru snemma í villuvandræði. Leikurinn var í járnum mest allan tímann en þegar Gunnar Stefánsson og Davíð Þór Jónsson komu inná fóru Keflvíkingar að berjast miklu meira og þeir komu með ferskleika í sóknina hjá þeim. Gunnar skoraði hverja körfuna á fætur annari og Davíð stjórnaði leiknum vel ásamt því að gera mikinn usla í vörn Njarðvíkinga. Staðan í hálfleik var 44:57 Keflvíkingum í vil.
Í seinni hálfleik komu Njarðvíkingar mun öflugri til leiks og náðu að jafna leikinn á stuttum tíma. Keflvíkingar voru þó alltaf skrefinu á undan og höfðu alltaf smá forskot. Í lok 3. leikhluta skoraði Logi Gunnarsson þriggjastigakörfu þegar flautan gall og minnkaði muninn í 7 stig, 62:69.
4. leikhluti byrjaði fjörlega því Teitur Örlygsson setti strax niður þrist og stuttu síðar náði Brenton Birmingham að jafna leikinn í 75:75. Liðin skiptust næstu mínútur á því að skora en þegar 3 mínútur voru eftir fór Jón N. útaf með 5 villur. Leikurinn var jafn 84:84 þegar 2 mínútur voru eftir en þá fór allt í baklás hjá Keflvíkingum og þeir skoruðu ekki í mínútu og á meðan komust Njarðvíkingar í 88:84. Þegar 40 sekúndur voru eftir tryggðu Njarðvíkingar sér svo sigur eftir að Gunnar Einarsson hafði fengið dæmda á sig óíþróttamannslega villu. Það má segja að Njarðvíkingar hafi tryggt sér þennan sigur á vítalínunni því þeir fengu 41 víti á móti aðeins 8 vítum Keflvíkinga og það verður að segjast að að svona munur er ótrúlegur.
Njarðvíkingar eru því með pálmann í höndunum, leiða 2-0 og þurfa aðeins að vinna einn leik í viðbót til að tryggja sér Íslandsmeistaratitilinn.

Pete Philo var frábær í liði Njarðvíkinga og skoraði 30 stig (það mesta sem hann hefur skorað á Íslandi) og gaf 9 stoðsendingar ásamt því að stjórna leiknum vel. Páll Kristinsson var einnig drjúgur og setti 17 stig og hirti 11 fráköst.
Aðrir sem settu mark sitt á leikinn hjá Njarðvík voru: Brenton Birmingham með 16 stig,Teitur Örlygsson með 12 stig, Logi Gunnarsson með 7 stig, Friðrik Stefánsson með 6 stig og 9 fráköst og 4 varin skot og Ragnar Ragnarsson með 5 stig.

Hjá Keflavík var Guðjón Skúlason stigahæstur með 21 stig. Það má þó segja að bestu menn Keflavíkurliðsins hafi verið Gunnar Stefánsson og Davíð Þór Jónsson því þeir sýndur ótrúlega baráttu í leiknum og spiluðu góða vörn, sérstaklega í fyrri hálfleik. Davíð var með 12 stig og 5 fráköst og Gunnar var með 7 stig og 2 varin skot.
Aðrir sem settu mark sitt á leikinn hjá Keflavík voru: Damon Johnson með 18 stig,14 fráköst og 4 varin skot, Magnús Gunnarsson með 12 stig, Gunnar Einarsson með 10 stig, Sverrir Sverrisson með 4 stig, Jón N. Hafsteinsson með 2 stig og 7 fráköst og Falur Harðarson með 2 stig.

Maður leiksins: Pete Philo, Njarðvíki.
Setning leiksins: „Njarðvíkingar sigruðu leikinn á vítalínunni“

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024