Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Íþróttir

Njarðvíkingar juku forskot sitt á toppnum
Kenneth Hogg skoraði bæði mörk Njarðvíkinga í dag. Myndir úr safni Víkurfréttat
Jóhann Páll Kristbjörnsson
Jóhann Páll Kristbjörnsson skrifar
laugardaginn 16. júlí 2022 kl. 22:03

Njarðvíkingar juku forskot sitt á toppnum

Njarðvíkingar unnu útisigur á Magna Grenivík í dag og juku forskot sitt á toppi 2. deildar karla í knattspyrnu. Njarðvík er með 34 stig en bæði Þróttur R. og Ægir töpuðu stigum í dag, Þróttur gerði jafntefli við Hött/Huginn og Ægismenn töpuðu fyrir Víkingi Ólafsvík 5:2. Reynismenn gerðu jafntefli við Völsung sem situr í fjórða sæti deildarinnar.

Magni - Njarðvík 1:2

Þrátt fyrir að vera í efsta sæti lentu Njarðvíkingar í smávægilegum vandræðum með Magna sem situr í næstneðsta sæti deildarinnar. Skotinn Kenneth Hogg kom Njarðvík yfir á 22. mínútu en í seinni hálfleik jöfnuðu Magnamenn (58').

Hogg var svo aftur á ferðinni á 79. mínútu þegar hann skoraði öðru sinni og tryggði þeim grænklæddu sigur.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Njarðvíkingar hafa nú átta stiga forystu á toppi deildarinnar þegar tólf umferðum er lokið.


Reynir - Völsungur 1:1

Sæþór Ívan skorar hér gegn Víkingi Ólafsvík.

Reynismenn sýndu miklar framfarir í dag þegar þeir tóku á móti Völsungi frá Húsavík. Reynir komst yfir á 12. mínútu með marki Sæþórs Ívans Viðarssonar, 1:0 fyrir Reyni og þannig stóðu leikar í hálfleik.

Völsungar náðu að jafna leikinn í seinni hálfleik (63') en lengra komust þeir ekki og jafntefli niðurstaðan.

Reynir situr á botni deildarinnar með fimm stig en þeir eru ekki nærri því búnir að stimpla sig úr keppninni því það er stutt í næstu lið. Magni er með sex stig og síðan koma Víkingur Ó. og Höttur/Huginn með níu stig hvort lið.


Sindri - Víðir 0:1

Jóhann Þór er öflugur markaskorari.

Víðismenn eru jafnir KFG að stigum á toppi 3. deildar karla en Víðir vann góðan útisigur á Sindra í dag með marki Jóhanns Þórs Arnarssonar.

Markið skoraði Jóhann Þór á 68. mínútu og dugði það Víðismönnum. Á sama tíma gerði KFG markalaust jafntefli við Augnablik og eru Víðir og KFG bæði með 24 stig að loknum tólf umferðum. Mikil spenna er í toppbaráttunni því næst koma Dalvík/Reynir með 22 stig og Sindri með 21 stig.