Njarðvíkingar Íslandsmeistarar í minnibolta
Um helgina fór Íslandsmótið í minnibolta 11 ára fram þar sem Njarðvíkingar stóðu uppi sem sigurvegarar.
Lið Njarðvíkur, undir stjórn Einars Árna Jóhannssonar, vann fjóra af fimm leikjum um helgina. Á laugardeginum unnust þrír flottir sigrar, gegn Hamar og gegn feiknasterkum liðum Fjölnis og Stjörnunnar. Á sunnudag töpuðu Njarðvíkingar óvænt fyrir UMFK og því var mikið undir í síðari leik liðsins sem var gegn Breiðabliki, hann unnu Njarðvíkingar 31:35 og innsigluðu Íslandsmeistaratitilinn.
Á vef UMFN segir að strákarnir hafi staðið sig vel í allan vetur en eitt sem var sérstaklega tekið eftir hjá hópnum var hversu til fyrirmyndar þeir voru á vellinum gagnvart mótherjum og dómurum, þeir voru félaginu sínu til sóma.