Njarðvíkingar í viðræðum við Val Ingimundarson
Körfuknattleiksdeild Njarðvíkur á þessa dagana í viðræðum við Val Ingimundarson um að taka við þjálfun liðsins. Þetta staðfesti Jón Júlíus Árnason formaður körfuknattleiksdeildarinnar. Verði Valur ráðinn mun hann fylla skarð Teits Örlygssonar sem þjálfaði liðið á síðustu leiktíð.
Valur er Njarðvíkingum að góðu kunnur enda á hann mjög svo drjúgan þátt í þeim verðlaunafánum sem prýða rjáfrið í Ljónagryfjunni.
Við settum okkur í samband við Val sem hafði þetta að segja um samningaviðræðurnar: ,,Njarðvíkurhjartað er farið að slá örar, ég viðurkenni það fúslega en við erum að fara yfir þessi mál,” sagði Valur sem búsettur er í Borgarnesi.
Valur er reyndur þjálfari og hefur áður þjálfað Njarðvíkinga en einnig Tindastól og Skallagrím og þá þjálfaði hann einnig í Danmörku um hríð. Valur er stigahæsti leikmaður Íslands en hann gerði 7355 stig á glæstum ferli sínum og þar af lék hann í 11 ár í Njarðvík.
Áður en Valur tók sér frí frá þjálfun fyrir síðustu leiktíð stýrði hann liði Skallagríms í Borgarnesi þar sem liðið, undir hans stjórn, lék m.a. til úrslita gegn Njarðvíkingum um Íslandsmeistaratitilinn leiktíðina 2005-2006.