Njarðvíkingar í úrslit í Danmörku
Njarðvík sigraði Bakken Bears, 72-60, í undanúrslitum Bakken Bears knock out Cup í dag. Það var einkum varnarleikurinn sem skilaði þessum góða sigri, en heimamenn leiddu 31-25 í hálfleik.
Njarðvíkingar voru ekki að ná sér á strik í sókninni í fyrri hálfleik en héldu sér í leiknum með góðri vörn. Friðrik Stefánsson var öflugastur þeirra í fyrri hálfleik og gerði 11 af þessum 25 stigum auk þess sem hann var að koma hinum risavaxna Chris Christofferson í villuvandræði (3 villur í hálfleiknum).
Brenton Birmingham var svo heldur betur heitur í seinni hálfleik. Hann gerði 3 stig í þeim fyrri en skoraði 20 stig í seinni hálfleik, þar af fimm þrista. Stóru menn Bakken voru jafnframt í vandræðum í teignum gegn Friðriki og þeir Chris Christofferson og Jonas Buur Sinding fengu báðir sína fimmtu villu. Njarðvíkingar héldu forystunni í kringum 10 stigin út leikinn og lokatölur eins og áður sagði 72-60.
Tölfræði UMFN:
Brenton Birmingham 23 stig (7 stolnir, 4 stoð)
Friðrik Stefánsson 22 stig (6 fráköst, 6 stoð)
Jeb Ivey 20 stig
Kristján Sigurðsson 3 stig
Egill Jónasson 2 stig (5 varin)
Jóhann Ólafsson 2 stig
Njarðvík vann Svendborg frá Danmörku í fyrsta leik sínum í mótinu í gær, 82-66.
Á morgun leikur UMFN til úrslita í mótinu. Að öllum líkindum er sá leikur einnig gegn Bakken Bears. Leikurinn á morgun er kl 14:00 að dönskum tíma eða 12:00 að íslenskum tíma.
Af www.umfn.is
Mynd úr safni: Brenton átti góðan leik í dag