Njarðvíkingar í sumarfrí 20. mars
Njarðvíkingar eru úr leik í 8-liða úrslitum Iceland Express deildar karla en Grindavík og Stjarnan þurfa að mætast í oddaleik um hvort liðið kemst í undanúrslit. Njarðvíkingar eru því komnir í sumarfrí 20. mars.
KR-ingar lögðu Njarðvíkinga í Ljónagryfjunni með 96 stigum gegn 80 stigum heimamanna og unnu því einvígið 2-0 og eru fyrsta liðið til að tryggja sér sæti í undanúrslitum. Marcus Walker gerði 21 stig í liði KR, Brynjar Þór Björnsson bætti við 20 stigum og Pavel Ermolinskij var með 16 stig, 18 fráköst og 9 stoðsendingar. Hjá Njarðvík var Jóhann Árni Ólafsson með 19 stig en þeir Giordan Watson og Jonathan Moore voru báðir með 18 stig og Watson auk þess 10 stoðsendingar.
Stjarnan 91 – 74 Grindavík
Renato Lindmets gerði 29 stig og tók 5 fráköst hjá Stjörnunni og Justin Shouse bætti við 23 stigum og 7 stoðsendingum. Hjá Grindavík var Páll Axel Vilbergsson með 27 stig og 3 fráköst og Ryan Pettinella bætti við 15 stigum og 13 fráköstum.
Grindavík 1-1 Stjarnan – oddaleikur í Grindavík á miðvikudag.
Myndin: Grindvíkingar þurfa oddaleik en Njarðvíkingar eru komnir í sumarfrí.