Njarðvíkingar í 2. sæti
Njarðvíkingar sigruðu Selfyssinga, 2-1, í 2. deild karla í knattspyrnu á Njarðvíkurvelli í kvöld og komust þar með í 2. sæti deildarinnar. Michael Jónsson kom Njarðvíkingum í 1-0 og Magnús Ólafsson skoraði annað mark heimamanna. Ómar Valdimarsson minnkaði muninn fyrir gestina í 2-1 en lengra komust þeir ekki.
Heimamenn voru sterkari í upphafi leiks og á 2. mínútu átti Michael Jónsson skot rétt framhjá marki Selfyssinga eftir góða fyrirgjöf. Gestirnir vöknuðu þó af værum blundi og beittu skyndisóknum sem voru að mestu bragðdaufar. Kristinn Björnsson sá gult í liði Njarðvíkinga á 13. mínútu en það fékk ekki á heimamenn. Þegar líða tók á fyrri hálfleik var leikurinn frekar jafn en á 32. mínútu varði Friðrik Árnason, markvörður Njarðvíkinga, boltann í stöng eftir góða sókn gestanna.
Staðan í hálfleik var 0-0 en Njarðvíkingar voru mun líklegri aðilinn til að skora í fyrri hálfleik og voru meira með boltann.
Eftir aðeins þriggja mínútna leik í seinni hálfleik var það Michael Jónsson sem kom Njarðvíkingum í 1-0 og hófst þá góður kafli í leik heimamanna. Sjö mínútum síðar átti Hafsteinn Rúnarsson skot rétt yfir mark Selfyssinga eftir góða fyrirgjöf Gunnars Sveinssonar. Á 63. mínútu leiksins var það svo Magnús Ólafsson sem var réttur maður á réttum stað þegar hann skoraði annað mark Njarðvíkinga. Michael Jónsson hafði þá skotið á mark gestanna en markverði Selfyssinga misfórst að halda boltanum og Magnús fylgdi vel á eftir, 2-0 og Njarðvíkingar mun sterkari aðilinn þegar hér er komið við sögu.
Gestirnir voru þó ekki af baki dottnir og náðu að minnka muninn á 70. mínútu en það gerði Ómar Valdimarsson eftir nokkurn darraðardans í vítateig Njarðvíkinga. Þar við sat og 2-1 sigur Njarðvíkinga staðreynd.
Það var mikið gleðiefni fyrir Njarðvíkinga þegar Guðni Erlendsson kom inn á leikvöllinn á 79. mínútu leiksins en Guðni var einn af máttarstólpum liðsins á síðustu leiktíð. Þetta var hans fyrsti leikur í sumar en hann hefur verið frá vegna meiðsla.
„Við ætluðum okkur að vinna þennan leik og sýna það í dag að við eigum heima á toppnum í þessari deild,“ sagði Snorri Már Jónsson, fyrirliði Njarðvíkinga, í samtali við Víkurfréttir í kvöld. „Við vorum að skapa okkur fleiri færi en Selfyssingar og hefðum átt að bæta við, baráttan var góð og boltinn að rúlla vel hjá okkur. Það eru góðir leikmenn í liðinu okkar og við stefnum á það að fara upp aftur en þetta er jöfn deild þar sem allir geta unnið alla en þeir sem mæta klárir í leikina verða þeir sem spila í 1. deild að ári,“ sagði Snorri að lokum.
Njarðvíkingar halda til Seyðisfjarðar í næsta leik og spila þar við Huginn en sá leikur er þann 25. júní næstkomandi.
Staðan í deildinni
VF-myndir / Jón Björn, [email protected]