Njarðvíkingar í 2. deild að ári
Njarðvíkingum misfórst að koma sér upp í 1. deild á ný er þeir töpuðu 3-2 gegn toppliði Leiknis í Reykjavík. Með sigrinum urðu Leiknismenn Íslandsmeistarar í 2. deild og munu því, ásamt Stjörnunni, leika í 1. deild að ári.
Heimamenn hófu leikinn af krafti og virtust líklegir til þess að gera mark á upphafsmínútunum. Vörn Njarðvíkinga hélt fyrst um sinn en á 14. mínútu fékk Einar Örn Einarsson stungusendingu inn fyrir vörn Njarðvíkur og skoraði. Leiknir 1-0 Njarðvík.
Skömmu síðar sóttu Njarðvíkingar upp hægri kantinn og þar sendi Sverrir Þór Sverrisson boltann fyrir markið og fann Rafn Markús Vilbergsson sem skoraði með viðstöðulausu skoti. Leiknir 1-1 Njarðvík.
Ekki leið á löngu uns heimamenn bættu öðru marki við en það kom eftir klafs í teig Njarðvíkinga. Leiknir 2-1 Njarðvík. Rétt eins og í fyrra skiptið náðu Njarðvíkingar að jafna skömmu eftir mark Leiknismanna. Var Rafn Vilbergsson þar á ferðinni í annað sinn og skoraði nú með skalla. Leiknir 2-2 Njarðvík.
Bæði lið áttu hættuleg færi það sem eftir lifði fyrri hálfleiks en Njarðvíkingar voru þó ívið sterkari aðilinn og hefðu nokkrum sinnum átt að skora úr frábærum marktækifærum en inn vildi boltinn ekki.
Þeir grænu komu grimmir til síðari hálfleiks og áttu sem fyrr ágætis möguleika á því að komast yfir. Mikil spenna var í leiknum sem var mjög hraður og nokkuð um háskalegar tæklingar.
Gegn gangi leiksins komust Leiknismenn yfir á 70. mínútu, segja má að það hafi verið þeirra fyrsta sókn í seinni hálfleik og hana nýttu þeir svo sannarlega. Leiknir 3-2 Njarðvík.
Eftir markið var mestur vindur úr Njarðvíkingum sem náðu ekki að svara fyrir sig og misstu í kjölfarið af sæti í 1. deildinni. Það verða því Leiknir og Stjarnan sem halda í 1.deildina á næstu leiktíð.
Staðan í deildinni
VF-myndir/ Jón Björn