Njarðvíkingar heppnir að fá Sigga bróður - segir Valur - var orðinn áhugalaus og hætti þess vegna
Valur Ingimundarson telur Njarðvíkinga heppna að fá bróður sinn, Sigurð, í starf þjálfara félagsins. Hann segir að neistinn og löngunin hafi ekki verið lengur til staðar og það sé að hluta til ástæða þess að hann ákvað að hætta þjálfun hjá félaginu. Einnig spili veikindi inn í ákvörðun hans eins og kemur frá í viðtali við hann á heimasíðu UMFN.
Valur Ingimundarson er einn af ástsælustu leikmönnum og þjálfurum UMFN frá upphafi. Kappinn hefur unnið til fjölda titla og viðurkenninga með UMFN bæði sem leikmaður og þjálfari. Vorið 2008 leitaði gamla félagið enn og aftur til Vals og báðu hann um að taka við þjálfun meistaraflokks UMFN. Valur sem hafði ári fyrr sett skóna og þjálfaraflautuna á hilluna brást ekki kallinu frekar en fyrri daginn. Eftir erfitt tímabil í fyrra þar sem gríðarlega breytingar voru á leikmannahóp UMFN skilaði Valur fínu verki, lið UMFN fór í undanúrslit í bikar og komust enn og aftur í úrslitakeppnina. Flottur árangur miðað við þær gríðarlegu breytingar sem áttu sér stað á liði UMFN.
Nú þegar undirbúningstímabilið er á enda tók Valur þá ákvörðun að stíga til hliðar og segja upp þjálfarastöðu sinni hjá UMFN. Þetta kom eflaust mörgum gríðarlega á óvart og er virkileg eftirsjá hjá félagsmönnum enda Valur gríðarlega mikils metinn hjá UMFN.
Heimamasíðan náði tali af Val Ingimundarsyni nú í kvöld og lagði fyrir hann nokkrar spurningar til þess að fá skýrari svör og koma málunum á hreint en Valur vildi endilega skýra sitt betur.
Nú kom uppsögn þín mjög á óvart, hvað veldur þessu eiginlega?
Ég hef verið lengi í þessum bransa og var í raun algjörlega hættur vorið 2008 þegar Njarðvíkingar leituðu til mín. Ég ákvað að taka þetta að mér og hafði mjög gaman af þessu. Hinsvegar núna í haust hef ég fundið að neistinn og löngunin voru ekki til staðar lengur og þá varð ég að vera hreinskilinn við mig og félagið og hætta. Einnig spilar það auðvitað inní að ég glími við smá sjúkdóm sem orsakar minnisleysi og hafði ég talverðar áhyggjur. Erfið ákvörðun auðvitað en ég tel hana rétta fyrir mig persónulega og félagið sjálft enda allt gert í mikilli sátt og samlyndi.
Þetta er nú bara einfaldlega þannig og ég vil koma á framfæri þökkum til stjórnarmanna og leikmanna UMFN sem tóku þessu mjög vel og sýndu mér fullan skilning.
Hvað með þá sögu að þið bræður hafið planað þetta?
Hahahaha...já ég hef fengið þessa spurningu áður en allir þeir sem þekkja okkur bræður vita að það er tómt kjaftæði. Samsæri er einfaldlega ekki til í minni orðabók, tek ekki þátt í kjaftasögum og hef aldrei gert. Siggi er að fá þetta starf út á eigin verðleika og tel ég UMFN vera heppna að njóta hans krafta þótt vissulega hafi eflaust verið aðrir kostir í stöðunni. Að Siggi skuli hætta hjá Solna á sama tíma er einfaldlega tilviljun en auðvitað gleður það mig að sjá hann taka við enda fær þjálfari og efast ég ekki um að hann muni standa sig með sóma. Þetta var hinsvegar ekki planað enda sér stjórn UMFN um að ráða þjálfara, ekki ég. Ef einhver trúir því að við ráðum þessu er það ansi kjánalegt og gerir lítið úr þeim frábæru stjórnarmönnum sem ráða hjá félaginu.
Eitthvað sem þú vilt segja að lokum?
Tek bara skýrt fram enn og aftur að brotthvarf mitt er einfaldlega mín ákvörðun frá A-Ö og ég skil sáttur við félagið. Mér þótti það heiður að taka þátt í uppbyggingunni hjá UMFN og þyki mjög vænt um félagið. Erfiðasta ákvörðun sem maður tekur í þjálfun er að hætta en ég tel mig hafa tekið rétta ákvörðun. Ætla að njóta þess vel að vera núna eins og hver annar stuðningsmaður og „pabbinn“ sem fylgist með börnunum sínum. Vil bara þakka fyrir mig, ég hef alltaf notið þess að spila og þjálfa fyrir Njarðvík og óska mínu félagi alls hins besta.
Við hjá heimasíðunni þökkum Val fyrir þetta viðtal og óskum honum alls hins besta. Valur mun vafalítið vera tíður gestur í Ljónagryfjunni sem áhorfandi en glæsilegum ferli Vals Ingimundarsonar sem þjálfara hjá UMFN er lokið að sinni. Fyrir hönd allra Njarðvíkinga þakkar heimasíðan honum fyrir frábært starf og vonast til að njóta krafta hans á einn eða annan hátt um ókomna framtíð.
Áfram Njarðvík