Njarðvíkingar gagnrýna vinnubrögð Aganefndar KKÍ
Stjórn körfuknattleiksdeildar Njarðvíkur gerir alvarlegar athugasemdir við vinnubrögð Aganefndar KKÍ í máli Páls Kristinssonar, sem var í gær dæmdur til eins leiks keppnisbanns vegna brottvísunar um síðustu helgi. Hér fylgir fréttatilkynning sem stjórn körfuknattleiksdeildarinnar sendi á Víkurfréttir fyrir stundu.
Fréttatilkynning.
Stjórn Körfuknattleiksdeildar UMFN hefur í morgun borist niðurstaða Aganefndar vegna kæru á hendur Páli Kristinssyni leikmanni UMFN vegna atviks í leik Umfn og Hamars þann 1. feb. sl.
Aganefnd dæmir Pál í eins leiks bann frá og með n.k. föstudegi þrátt fyrir athugasemdir Páls um að honum hafi ekki verið birt kæran með viðeigandi fyrirvara samkv. reglugerð um Aganefnd KKÍ og ósk um frest til að skila gögnum sbr. 3. gr a en þar segir m.a.
“Tilkynna skal hinum kærða aðila um efni kærunnar, og gefa honum sólarhringsfrest til að skila gögnum varðandi kæruna fyrir fund aganefndar og/eða óska eftir málflutningi um málið”.
Aganefnd virðist í niðurstöðu sinni skýla sér á bak við venjur sem nefndin hefur myndað en ekki reglugerðarákvæðið sem menn skyldu ætla að væri til þess gert að koma í veg fyrir dóma samkvæmt venjum og hefðum, þá notar Aganefnd það til frekari réttlætingar á dómi sínum að áður hafi ekki verið gerðar athugasemdir við þessa málsmeðferð. Stjórn bendir á að nú hefur þessi athugasemd verið gerð og því geti nefndin ekki skýlt sér á bakvið þessi rök, nefndinni ber að fara eftir reglugerðinni um að tilkynna þeim kærða um kæruna, ekki einhverjum öðrum. Á það má benda að í tölvupósti til formanns KKD UMFN var þess í engu getið að forsvarsmönnum félagsins bæri að tilkynna Páli áfram um kæruna.
Í niðurlagi úrskurðar nefndarinnar kemur síðan fram að Aganefnd telji að ekki séu tilgreindar nægar ástæður til að nefndin geti orðið við beiðni um frestun á fyrirtöku málinu og teljum við nefndina þar segja okkur að Aganefnd KKÍ telji sig óbundna af því að fara eftir Reglugerðum KKÍ.
Að lokum má geta þess að stjórn KKD UMFN telji það á mjög gráu svæði að formaður Aganefndar og einn helsti stuðningsmaður Keflavíkur skuli ekki víkja sæti við fyrirtöku á þessu máli þar sem hann er að dæma Pál í leikbann í Bikarúrslitaleik á milli UMFN og Keflavíkur sem verður að teljast einn stærsti einstaki viðburður körfuknattleikstímabilsins.
Stjórn KKD UMFN
Greinilegt er að þetta mál hefur ekki verið til lykta leitt og verður eflaust til umræðu næstu daga fram að bikarúrslitunum.