Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Íþróttir

Njarðvíkingar fóru með öll stigin úr Vogum
Það var hart barist á Vogaídýfuvellinum. Hér má sjá Marc McAusland á fjórum fótum eftir samstuð við Þróttara. Kenneth Hogg er til vinstri en hann skoraði tvö mörk Njarðvíkinga. VF-myndir/pket.
Páll Ketilsson
Páll Ketilsson skrifar
miðvikudaginn 2. september 2020 kl. 10:42

Njarðvíkingar fóru með öll stigin úr Vogum

Njarðvíkingar lögðu granna sína í Þrótti Vogum í spennandi leik á Vogaídýfuvellinum í gær. Lokatölur urðu 2:3 fyrir gestina úr Njarðvík sem eru eftir sigurinn í 3.-4. Sæti 2. Deildar en Þróttarar eru í 5. Sæti. Bæði liðin eiga góða möguleika á að komast upp í Lengjudeildina.

Njarðvíkingar byrjuðu betur en Þróttarar unnu sig inn í leikinn eftir því sem leið á fyrri hálfleik. Það voru heimamenn sem skoruðu fyrsta markið, rétt fyrir leikhlé og var þar Júlíus Óli Stefánsson að verki (44’). Staðan 1:0 í hálfleik fyrir Þrótti.

Njarðvíkingar gáfust ekki upp og mættu ákveðnir til seinni hálfleiks. Á 64. mínútu jafnaði markahrókurinn Kenneth Hogg leikinn með skoti úr teignum. Fimm mínútum síðar brutu Þróttarar á Hogg og Njarðvíkingar fengu dæmt víti sem fyrirliðinn Marc McAusland skoraði úr af öryggi (69’) og Njarðvík komið með forystuna.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Nýr leikmaður Þróttar, Hubert Rafal Kotus, komst á blað í sínum fyrsta leik á 74. mínútu og því var staðan 2:2 í hörkuskemmtilegum leik en Kenneth Hogg var ekki hættur. Ivan Prskalo stal boltanum af Þrótturum á 78. mínútu og gaf góða stungusendingu inn á Hogg sem lætur ekki svoleiðis færi fara forgörðum. 3:2 fyrir Njarðvík og þótt Þróttarar reyndu sem þeir gátu náðu þeir ekki að jafna leikinn. Mikilvægur sigur í höfn hjá Njarðvík og þeir færast því upp fyrir Þrótt í fjórða sætið.

Reynismenn töpuðu illa heima

Eftir að hafa sigrað Einherja 9:2 í síðustu umferð steinlá topplið Reynis á heimavelli sínum fyrir Elliða sem var í næstneðsta sæti deildarinnar, lokatölur 1:4 fyrir Elliða. Leikurinn, sem fór fram á þriðjudag, var í 15. umferð 3. deildarinnar og úrslit hans gætu þýtt að Reynir missi efsta sætið til KV sem leikur á miðvikudag.

Júlíus Óli Stefánsson skoraði fyrsta mark leiksins í Vogum og heimamenn leiddu 1:0 í hálfleik en það dugði ekki til sigurs.

Þróttur-UMFN 2. deild 2020