Njarðvíkingar fengu útreið á heimavelli
Jón Haukur Haraldsson opnaði markareikning Njarðvíkinga þetta sumarið í 1. deild karla í knattspyrnu en svo óheppilega vildi til að um sama leyti var brunaútsala í varnarleik Njarðvíkinga sem lágu 1-5 gegn Fjarðabyggð í 3. umferð 1. deildar í gær. Lokatölur leiksins gefa nokkuð skringilega mynd af leiknum sem mestan tímann var nokkuð jafn. Liðsmenn Fjarðabyggðar nýttu öll sín færi gríðarlega vel og refsuðu Njarðvíkingum fyrir minnstu mistök á meðan heimamenn voru ekki nægilega ákveðnir við mark andstæðinganna.
Eftir þrjár umferðir eru Njarðvíkingar í 11. og næstneðsta sæti deildarinnar með eitt stig og leika næst gegn Víkingi frá Reykjavík þann 29. maí næstkomandi kl. 20:00 á Víkingsvelli.
Njarðvíkingar hófu leik gegn sterkum vindinum og voru sókndjarfari en gestir sínir í upphafi leiks. Á 19. mínútu fengu Njarðvíkingar fínt færi þegar Hafsteinn Ingvar Rúnarsson sendi boltann fyrir markið en Frans Elvarsson lét verja frá sér í góðu færi.
Á 29. mínútu komust gestirnir í 0-1 með marki frá Hauki Ingvari Sigurbergssyni sem fékk stungusendingu inn fyrir Njarðvíkurvörnina og renndi boltanum af öryggi fram hjá Ingvari Jónssyni í Njarðvíkurmarkinu.
Skömmu síðar eða á 36. mínútu var Sveinbjörn Jónasson á ferðinni og kom Fjarðabyggð í 0-2. Sveinbjörn nýtti sér vel góða sendingu og komst aftur fyrir Njarðvíkurvörnina, lék á Ingvar í markinu og kom sínum mönnum örugglega í 0-2 og þannig stóðu leikar í hálfleik. Segja má að Fjarðabyggð hafi fengið tvö góð færi í fyrri hálfleik og þau nýttu þeir vel með því að gera mark í bæði skiptin.
Njarðvíkingar komu ákveðnir inn í síðari hálfleikinn og gerðu mark strax á 53. mínútu. Markið gerði Jón Haukur Haraldsson langt utan af velli. Jón Haukur hugðist senda boltann inn í teig en markvörður gestanna misreiknaði sendinguna og missti boltann yfir sig og í netið og staðan orðin 1-2 og mikið kapp hlaupið í Njarðvíkinga.
Kappið bar þó fegurðina ofurliði þegar Njarðvíkingar voru kýldir niður á jörðina með þriðja marki gestanna aðeins þremur mínútum eftir að þeir höfðu minnkað muninn. Sveinbjörn Jónasson skoraði öðru sinni og kom gestunum í 1-3 aðeins þremur mínútum eftir að Njarðvíkingar höfðu skorað sitt mark. Sannkallað bylmingshögg sem Njarðvíkingar fengu og þeim tókst ekki að hrista þetta af sér heldur bættu gestirnir í muninn og lokatölur urðu 1-5 og Njarðvíkingar gersigraðir á heimavelli.
Síðustu tvö mörk gestanna gerðu þeir Vilberg Marinó Jónasson á 77. mínútu og fimmta mark leiksins gerði Sigurður Víðisson á 94. mínútu.
Næsti leikur hjá Njarðvíkingum er gegn Víkingum R. á fimmtudag og þá freista grænir þess að landa sínum fyrsta sigri í deildinni.
VF-Mynd/ [email protected] – Ísak Örn Þórðarson skoraði grimmt á undirbúningstímabilinu fyrir Njarðvík en hefur ekki fundið fjölina að undanförnu.