Njarðvíkingar fagna sigri í Sláturhúsinu (uppfært)
Njarðvíkingar hrósuðu sigri á nágrönnum sínum í Keflavík í Meistarakeppni KKÍ í kvöld, 73-94. Leikurinn fór fram í Íþróttahúsinu við Sunnubraut, en þetta er annað árið í röð sem Njarðvíkingar sigra Keflvíkinga á heimavelli í þessari keppni.
Heimamenn byrjuðu betur og komust í 14-4, en Njarðvíkingar svöruðu að bragði og komust yfir, 18-22, áður en fyrsta leikhluta lauk. Fram að hálfleik var leikurinn jafn og spennandi þó að hann hafi vissulega borið keim af því að liðin eru ekki í fullri leikæfingu. Staðan þegar liðin héldu inn í klefa var 42-46 fyrir Njarðvík.
Jeb Ivey og Magnús Gunnarsson báru af í sitt hvoru liðinu, en Njarðvíkingurinn Egill Jónason átti einnig góðan leik, sérstaklega í vörninni þar sem hann varði 5 skot.
Í upphafi seinni hálfleiks fóru lykilmenn í Keflavíkurliðinu að lenda í villuvandræðum. Jason Kalsow fékk sína fjórðu villu og munaði um minna þar sem þá vantaði líka Zlatko Gocevski, Makedónann í þeirra liði. Njarðvíkingar héldu forskotinu í um fimm stigum og náðu Keflvíkingar ekki að vinna það niður þrátt fyrir ágætis innkomu hjá mönnum eins og Arnari Frey Jónssyni.
Njarðvíkingar voru einfaldlega sterkari undir lokin þar sem Ivey fór hreinlega á kostum auk þess sem Egill sýndi snilldartakta á köflum. Þessi ungi leikmaður fær stærra hlutverk í liðinu nú en oft áður og virðist vera í stakk búinn að taka á sig meiri ábyrgð, bæði í vörn og sókn.
Njarðvíkingar sigruðu því Meistarakeppnina í fimmta skipti á síðustu sjö árum og hafa því unnið fjögur mót í aðdraganda Íslandsmótsins sem hefst í næstu viku.