Njarðvíkingar færast upp töfluna
Njarðvíkingar unnu hörkusigur á Haukum þegar liðin mættust í Subway-deild karla í körfuknattleik í gær. Með sigrinum fór Njarðvík upp í þriðja sæti, upp fyrir Keflavík sem tekur á móti KR í kvöld. Grindvíkingar sáu hins vegar aldrei til sólar þegar þeir heimsóttu Stjörnuna í Garðabæ og eru Grindvíkingar í níunda sæti deildarinnar.
Njarðvík - Haukar 75:71
(21:26, 20:15, 15:17, 19:13)
Leikur Njarðvíkur og Hauka var hnífjafn háspennuleikur, þótt gæði hans hefðu mátt vera meiri, og munurinn á liðunum varð mestur sjö stig. Það voru gestirnir sem sigu örlítið fram úr í lok fyrsta leikhluta og náðu fimm stiga forskoti (21:26) en dæmið snerist við í öðrum hluta, þá náði Njarðvík snúa stöðunni sér í vil og komast fjórum stigum upp fyrir Hauka (39:35) en gestirnir jöfnuðu leikinn áður en blásið var til hálflleiks (41:41).
Haukar höfðu yfirhöndina lengst af í þriðja leikhluta en munurinn á liðunum var aðeins tvö stig að honum loknum (56:58). Njarðvík snéri leiknum sér í vil um miðjan fjórða leikhluta þegar Mario Matasovic setti niður þrist (67:65) og Njarðvík hélt Haukum í skefjum það sem eftir lifði leiks. Góður sigur hjá Njarðvík sem lék án Nicolas Richotti sem er meiddur, Logi Gunnarsson snéri aftur á völlinn eftir að hafa verið að glíma við meiðsli og átti ágætis leik (tólf stig). Mario Matasovic var stiga- og framlagshæstur heimamanna með nítján stig og 29 framlagspunkta en hann hirti tíu fráköst og stal boltanum sex sinnum.
Njarðvík: Mario Matasovic 19/10 fráköst/6 stolnir, Dedrick Deon Basile 18/4 fráköst/5 stoðsendingar, Logi Gunnarsson 12, Oddur Rúnar Kristjánsson 11, Haukur Helgi Pálsson 10/17 fráköst/5 stoðsendingar, Lisandro Rasio 4/6 fráköst, Maciek Stanislav Baginski 1/4 fráköst, Rafn Edgar Sigmarsson 0, Ólafur Helgi Jónsson 0, Jan Baginski 0, Elías Bjarki Pálsson 0.
Stjarnan - Grindavík 94:65
(26:18, 26:17, 19:23, 23:7)
Grindvíkingar eiga í erfiðleikum þessa dagana en það vantar klárlega breidd í leikmannahópinn. Eftir að hafa misst Jón Axel Guðmundsson frá sér í atvinnumennsku og rift samningi við Evangelos Tzolos svaraði liðið með kraftmikilli frammistöðu og sigri á Njarðvík. Grindavík hefur ekki náð að fylgja þeirri frammistöðu eftir og tapað fyrir Tindastóli og Stjörnunni.
Stjarnan átti ekki í vandræðum með Grindavík þegar liðin mættust í gær og höfðu sautján stiga forystu í hálfleik (52:35). Grindvíkingar náðu að klóra í bakkann í þriðja leikhluta sem þeir unnu með fjórum stigum en líkt og gerðist í leiknum þar á undan, gegn Tindastóli, þá var allur vindur úr þeim í fjórða leikhluta. Það tekur sinn toll að hafa ekki mannskap til að dreifa álaginu en eins og sést í síðustu tveimur leikjum þá hefur Grindavík fengið á sig samtals 48 stig í fjórða leikhluta en aðeins skorað nítján.
Grindavík: Damier Erik Pitts 18/5 fráköst/5 stoðsendingar, Kristófer Breki Gylfason 16/4 fráköst, Ólafur Ólafsson 14/4 fráköst, Bragi Guðmundsson 9/4 fráköst, Valdas Vasylius 6/4 fráköst, Hilmir Kristjánsson 2, Hafliði Ottó Róbertsson 0, Einar Snær Björnsson 0, Nökkvi Már Nökkvason 0, Jón Eyjólfur Stefánsson 0.