Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Íþróttir

Njarðvíkingar eru meistarar meistaranna
Aliyah Collier var í miklum ham leiknum í gær og oft var eina leið varnarmanna Hauka að brjóta á henni eins og er í uppsiglingu á þessari mynd. Myndir af Facebook-síðu körfuknattleiksdeildar Njarðvíkur
Jóhann Páll Kristbjörnsson
Jóhann Páll Kristbjörnsson skrifar
mánudaginn 19. september 2022 kl. 08:28

Njarðvíkingar eru meistarar meistaranna

Ljónynjurnar úr Njarðvík hefja körfuknattleikstímabilið með látum en þær fóru með sigur af hólmi þegar Haukar mættu í Ljónagryfjuna í gær þar sem keppt var um titilinn meistarar meistaranna. Þessi sömu lið mættust í úrslitarimmu um Íslandsmeistaratitilinn á síðasta tímabili og fór það alla leið í oddaleik, eins og flestir vita voru það Njarðvíkingar sem höfðu betur að lokum og hömpuðu Íslandsmeistaratitli kvenna 2022.

Leikurinn í gær var sveiflukenndur en liðin skiptust á að vinna hvern leikhluta, Njarðvík náði níu stiga forskoti eftir fyrsta leikhluta en Hauka leiddu með einu í hálfleik. Aftur tók Njarðvík forystu og hafði níu stiga forskot fyrir fjórða leikhluta sem Haukar unnu með níu stigum. Það þurfti því framlengingu sem Njarðvíkingar unnu 16:9 og eru því meistarar meistaranna. Lokatölur 94:87 Njarðvík í vil.

Aliyah Collier átti magnaðan leik og gerði 45 stig auk þess að taka 29 fráköst. Þá þreytti Raquel Laniero frumraun sína með Njarðvíkingum og hún byrjar vel, var með 29 stig, sjö fráköst og sex stoðsendingar í sínum fyrsta leik.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Raquel Laniero fer vel af stað með Njarðvík og mun eflaust vera mikill styrkur í baráttunni sem framundan er.

Njarðvík: Aliyah A'taeya Collier 45/29 fráköst, Raquel De Lima Viegas Laniero 29/7 fráköst/6 stoðsendingar, Lavinia Joao Gomes De Silva 10/4 fráköst, Krista Gló Magnúsdóttir 5, Erna Hákonardóttir 3, Kamilla Sól Viktorsdóttir 2, Anna Lilja Ásgeirsdóttir 0, Þuríður Birna Björnsdóttir Debes 0, Lovísa Bylgja Sverrisdóttir 0, Bríet Sif Hinriksdóttir 0, Ása Böðvarsdóttir-Taylor 0, Dzana Crnac 0.


Myndirnar eru fengnar af Facebook-síðu körfuknattleiksdeildar Njarðvíkur og í spilaranum hér að neðan má sjá viðtal sem Karfan.is tók við Rúnar Inga Erlingsson, þjálfara Njarðvíkur, að leik loknum.