Njarðvíkingar enn í basli
Njarðvíkingar lentu enn í basli í Ljónagryfjunni í gær þegar hrikalegur fyrri hálfleikur hefði getað kostað þá sigurinn gegn Þór frá Akureyri. Lokatölur voru 84-74, eftir að Njarðvíkingar höfðu verið undir í hálfleik 29-45.
Leikurinn var nokkuð jafn í byrjun þar sem gestirnir að norðan börðu vel frá sér og staðan eftir fyrsta leikhluta var 23-22 heimamönnum í vil. Þá tók við hræðilegur kafli þar sem ekkert vildi ofan í og heildarstigafjöldi liðsins í 2. leikhluta var 6 stig og hefur vart sést annað eins.
Í hálfleik var staðan 29-45 en Einar Árni Jóhannsson, þjálfari, hefur sennilega ekki vandað sínum mönnum kveðjurnar í hlé.
Njarðvíkingar komu loks til leiks í 3. leikhluta þar sem Jeb Ivey fór á kostum og teymdi sína menn áfram ásamt þeim Friðriki Stefánssyni og Halldóri Karlssyni sem átti enn góða innkomu á lykilstundu.
Jafnt og þétt saxaðist á forskotið þar sem Þórsarar áttu í stökustu erfiðleikum með að finna körfuna og Njarðvíkingar komust loks yfir og leiddu fyrir lokaleikhlutann, 64-58.
Hart var barist í síðasta leikhluta, en Njarðvíkingar héldu haus og kláruðu leikinn með sigri. Einar Árni var allt annað en sáttur við spilamennskuna í fyrri hálfleik eins og gefur að skilja.
„Við vorum bara týndir í 2. leikhluta þar sem liðið datt allt niður. Við vorum að klikka á vítum og opnum færum og tókum ekki á móti Þórsurum sem börðu vel frá sér. Við vorum þess vegna komnir upp við vegg í hálfleik og það verður að hrósa strákunum fyrir að komast aftur inn í leikinn. Hins vegar vitum við að þetta dugar ekki til lengdar og höfum meiri metnað en þetta. Svo er leikur gegn Keflavík á sunnudag og þá dugar ekki að gefa heilu leikhlutana. Það er alveg ljóst.“
VF-myndir/Þorgils