Njarðvíkingar enn á toppnum
Topplið 2. deildar, Reynir og Njarðvík, skildu jöfn 1-1 í nágrannaslagnum sem fram fór á Sandgerðisvelli í kvöld. Adolf Sveinsson kom Sandgerðingum yfir 1-0 en Rafn Markús Vilbergsson jafnaði metin fyrir Njarðvíkinga og þar við sat.
Nokkuð jafnræði var með liðunum í fyrri hálfleik en fram að marki Adolfs var fremur fátt um fína drætti. Bæði lið voru vör um sig enda vildi hvorugur aðilinn sjá á eftir stigi í leiknum.
Löng sending kom fram völlinn og Albert Sævarsson, markvörður Njarðvíkinga, misreiknaði sig í úthlaupinu svo Adolf náði til boltans og renndi honum í autt markið. Reynir 1-0 Njarðvík.
Eins og sönnum grannaslag sæmir var vel tekið á því en stundum gengu menn of langt og var nokkuð um hressilegar tæklingar sem dómari leiksins hefði mátt taka betur á en til allrar lukku sluppu allir við meiðsli því Sandgerðingar mega ekki við enn einu nafninu á meiðslalista.
Eftir mark Sandgerðinga sóttu Njarðvíkingar í sig veðrið og skömmu fyrir leikhlé gaf Eyþór Guðnason boltann fyrir markið af vinstri vængnum og þar var kominn Rafn Markús sem sendi boltann viðstöðulaust í markið. Reynir 1-1 Njarðvík og þannig stóðu leikar í hálfleik.
Njarðvíkingar komu mun sterkari til síðari hálfleiks og voru mun meira með boltann. Sóknir Njarðvíkinga lágu oft þungt á Reynismarkinu en vörn heimamanna var föst fyrir og því fór sem fór. 1-1 jafntefli og Njarðvíkingar halda því enn toppsæti deildarinnar nú með 18 stig en Sandgerðingar eru áfram í 2. sæti og með 16 stig.
Staðan í deildinni
VF-myndir/ [email protected]