Njarðvíkingar enn á toppnum
Í kvöld tóku Njarðvíkingar á móti Fjölnismönnum í 1.deild karla og báru sigur úr býtum 3-2. Fjölnismenn voru sterkari aðilinn í leiknum þangað til Bjarni Sæmundsson, fyrirliði Njarðvíkur, kom heimamönnum yfir á 22. mínútu með góðu skallamarki eftir hornspyrnu. Það sem eftir lifði fyrri hálfleiks voru þeir grænklæddu mun sterkari og munaði nokkrum sinnum mjóu að þeir myndu bæta öðru marki við.
Í byrjun seinni hálfleiks sendi Alfreð Jóhannsson boltann fyrir markið og rataði hann beint á kollinn á Gunnari Sveinssyni sem þakkaði fyrir sig með glæsilegu skallamarki. Allt virtist stefna í sigur heimamanna en Fjölnismenn hertu róðurinn með þrjá nýja serbenska leikmenn innanborðs og jöfnuðu leikinn á aðeins fimm mínútna kafla. Á 72. mínútu skoraði svo Milan Janosevic eftir miknn barning í teignum og kom heimamönnum yfir enn á ný. Þegar aðeins fimm mínútur voru til leiksloka braut Friðrik Árnason, markmaður Njarðvíkinga, á Ilic Mladen inni í vítateig og var réttilega dæmd vítaspyrna sem Ilic tók sjálfur en Friðrik varði meistaralega og tryggði því heimamönnum stigin þrjú.
Mikil óánægja var með dómgæsluna í leiknum en dómari leiksins, Svanlaugur Þorsteinsson, bætti heilum 13 mínútum við seinni hálfleik og hafði lítil sem engin tök á því sem var að gerast. Tveir Fjölnismenn fengu að líta rauða spjaldið undir lok leiksins, annar fyrir óíþróttamannslega framkomu sem áður hafði fengið gult spjald en hinn fyrir gróft brot.
Helgi Bogason, þjálfari Njarðvíkur, var að vonum ánægður með stigin þrjú í leikslok en sagði í samtali við Víkurfréttir að þetta hefði verið mikill barningur og ekki fallegur fótbolti á köflum. Næsti leikur Njarðvíkinga verður á Hlíðarenda gegn Valsmönnum og segir Helgi að það verði gaman að takast á við Valsmenn og að honum lítist vel á framhaldið.
Njarðvíkingar halda því toppsætinu í 1. deildinni með fullt hús stiga og markatöluna 8:2.
VF-mynd/Halldór Rósmundur: Úr leik Njarðvíkur og Breiðabliks fyrr í sumar