NJARÐVÍKINGAR EKKI TILBÚNIR Í ÚRSLITALEIK
Útlendingslausir nýliðar Hamars komu bikarmeisturum Njarðvíkinga í opna skjöldu í Hveragerði en reynslan og breiddin færði Njarðvíkingum nauman sigur 80-76. Hamarsmenn mættu til leiks eins og um úrslitaleik væri að ræða, seldu blíðu sýna dýrt, og „stórliðið” með alla sína landsliðsmenn komst hvorki lönd né strönd langtímum saman. „Það verður ekki af Hamarsmönnum tekið að þeir börðust alveg rosalega og spiluðu á köflum vel. Þetta er lið sem er keyrt áfram af hungri til að standa sig og mættu margir taka þá sér til fyrirmyndar. Þar fór ekki mikið fyrir varnarleik hjá bakvörðunum mínum og það er alveg ljóst að sumir þurfa að gera það upp við sig hvort þeir hafi yfir höfuð einhvern metnað til að spila gegn fyrirframtöldum slakari liðum. Stóru mennirnir okkar börðust vel í vörninni og tóku fráköstin en var gersamlega fyrirmunaðað koma knettinum í körfuna að þessu sinni”, sagði Friðrik Ingi þjálfari. Sauðkræklingurinn Ómar Sigmarsson átti sinn besta leik á ferlinum gegn sofandalegum bakvörðum Njarðvíkinga og skoraði 7 þriggja stiga körfur. Jason Hoover sýndi vart betri sóknartilburði en Rodney Dean (sem var áhorfandi) en stóð sig vel varnarmeginn og halaði inn 15 fráköst. Ætli það sé uppsagnarfrestur í starfssamningi hans?