Njarðvíkingar efstir eftir góðan útisigur
Njarðvíkingar eru í efsta sæti Subway-deildar karla í körfuknattleik eftir góðan sigur á Völsurum í gær. Eftir jafnan fyrri hálfleik keyrðu Njarðvíkingar hreinlega yfir Valsara í þeim síðari og uppskáru nítján stiga sigur, 69:88.
Valur - Njarðvík 69:88
(21:18, 18:20, 15:29, 15:21)
Fyrri hálfleikur var mjög jafn en þó höfðu heimamenn í Val örlítið forskot megnið af tímanum og náðu mest tólf stiga forystu (21:9) í fyrsta leikhluta en Njarðvíkingar minnkuðu muninn í þrjú stig áður en leikhlutinn var allur (21:18). Valur hélt áfram að leiða og náði tíu stiga forskoti í öðrum leikhluta (33:23) en aftur tóku Njarðvíkingar við sér og minnkuðu muninn niður í aðeins eitt stig áður en háflleiksflautan gall (39:38)).
Njarðvíkingar tóku öll völd á vellinum í þriðja leikhluta og leiddu mest með fimmtan stigum (52:67) undir lok leikhlutans en Valsmenn áttu engin svör við góðum leik þeirra grænklæddu sem léku á alls oddi og leiddu leikinn með þrettán sigum fyrir lokaleikhlutann (54:67). Njarðvík hélt áfram að bæta í í fjórða leikhluta og gengu frá góðum nítján stiga sigri með frábærri frammistöðu, lokatölur 69:88.
Njarðvík, Þór Þorlákshöfn og Keflavík eru öll með tuttugu stig eftir fjórtán leiki en næstu lið eru Valur, Grindavík, Stjarnan og Tindastóll með fjórtán stig en Valur og Stjarnan eiga tvo leiki inni og Grindavík einn.
Frammistaða Njarðvíkinga: Nicolas Richotti 23/4 fráköst, Dedrick Deon Basile 16/8 stoðsendingar, Mario Matasovic 11/8 fráköst, Veigar Páll Alexandersson 10, Maciek Stanislav Baginski 9/4 fráköst, Haukur Helgi Pálsson 7, Fotios Lampropoulos 4/7 fráköst, Logi Gunnarsson 3, Ólafur Helgi Jónsson 3, Jan Baginski 2, Bergvin Einir Stefánsson 0, Elías Bjarki Pálsson 0.