Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Íþróttir

Njarðvíkingar deildarmeistarar 2022
Jóhann Páll Kristbjörnsson
Jóhann Páll Kristbjörnsson skrifar
laugardaginn 10. september 2022 kl. 17:29

Njarðvíkingar deildarmeistarar 2022

Njarðvík tryggði sér deildarmeistaratitilinn í 2. deild karla í knattspyrnu með góðum 3:0 sigri á Hetti/Huginn. Það var Magnús Þórir Matthíasson sem var maður leiksins en hann skoraði öll mörk Njarðvíkinga. Á sama tíma féll Reynir Sandgerði í 3. deild en Reynismenn þurftu á sigri að halda í dag til að eygja von um áframhaldandi sæti í 2. deild, það gekk ekki eftir og Reynir tapaði illa á útivelli.
Þrenna hjá markahróknum Magnúsi Þóri tryggði Njarðvík sigur í deildinni.

Njarðvík - Höttur/Huginn 3:0

Njarðvíkingar sýndu það og sönnuðu að þeir hafa verið langbesta lið 2. deildar í ár með öruggum sigri á Hetti/Huginn í dag. Sigurinn var aldrei í hættu en það var markahrókurinn Magnús Þórir Matthíasson sem kom Njarðvík á bragðið með marki úr vítaspyrnu í fyrri hálfleik (13').

Í seinni hálfleik bætti Magnús öðru marki við þegar hann skoraði beint úr hornspyrnu (67') og hann kórónaði góðan leik og innsiglaði sigurinn með skallamarki eftir hornspyrnu (76').

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Að leik loknum fengu Njarðvíkingar deildarmeistarabikarinn afhentan við mikinn fögnuð stuðningsmanna sinna. Jóhann Páll Kristbjörnsson, ljósmyndari Víkurfrétta, var á vellinum og fangaði stemmninguna. Myndasafn er neðst á síðunni.


KF - Reynir 8:3

Reynismenn þurftu á sigri að halda í dag til eiga möguleika á að forðast fall en eftir um hálftíma leik komst KF yfir (31'). Í uppbótartíma fyrri hálfleiks urðu Reynismenn fyrir áfalli þegar Ivan Jelic, markvörður liðsins, fékk að líta rauða spjaldið og KF tvöfaldaði forystuna.

Það var því ljóst að seinni hálfleikur yrði erfiður og KF bætti tveimur mörkum við till að komast í 4:0 (63' og 70'). Akil Rondel Dexter De Freitas var þó ekki búinn að gefast upp á með mínútu millibili skoraði hann sitt hvort markið til að minnka muninn í 4:2 (75' og 76').

KF svaraði með fjórum mörkum til viðbótar en Ársæll Kristinn Björnsson náði þó að skora þriðja mark Reynis á lokamínútu leiksins (90').

Njarðvík - Höttur/Huginn (3:0) | 2. deild karla 10. september 2022