Karlakór Kef kertatónleikar
Karlakór Kef kertatónleikar

Íþróttir

Fimmtudagur 8. mars 2001 kl. 23:07

Njarðvíkingar deildarmeistarar

Körfuknattleikslið Njarðvíkur varð í kvöld deildarmeistari EPSON-deildarinnar þrátt fyrir 98-96 tap gegn Grindvíkingum því lærisveinar Vals Ingimundarsonar tóku KR í bakaríið 85-70 á Sauðarkróki á sama tíma.Leikur Grindvíkinga og Njarðvíkinga, sem sýndur var beint á Sýn, var hin besta skemmtun, jafn, spennandi og glæsitilþrif á báða bóga. William Keys hóf leikinn af miklum krafti og hafði er skammt var eftir af 1. leikhluta skorað fleiri stig en allt Njarðvíkurliðið eða 17 talsins. Njarðvíkingar leituðu grimmt inn í vítateig Grindvíkinga og fór Jes Hansen mikinn í fyrri hálfleiknum sem lauk 44-48 fyrir gestina. Stórskyttulið Grindvíkinga lét til sín taka í 3. leikhluta og oft var 3 stiga ógnunin nóg til setja vörn Njarðvíkinga úr skorðum og boltinn gekk þar til fríi maðurinn var fundinn. Þegar langt var liðið á 4. leikhluta náðu Grindvíkingar 9 stiga forskoti en ekki verður af grænum sagt að þeir gefist upp og á örfáum sekúndum jöfnuðu Njarðvíkingar en William Keys lét ekki að sér hæða á lokasekúndunum og tryggði Grindvíkingum sigurinn með síðustu 4 stigum leiksins. Keys var bestur Grindvíkinga ásamt Páli Axeli sem lék skínandi vel en allir leikmenn liðsins lögðust á eitt og uppskáru sætan sigur og gott vegarnesti fyrir úrslitakeppnina en þeir mæta Keflvíkingum í fyrstu umferð. Njarðvíkingar gáfu verulega eftir í síðustu leikjum deildarkeppninnar en forskot þeirra í deildinni varð ekki brúað. Þeirra verkefni í fyrstu umferðinni verður spútniklið Borgnesinga með Alex "hin aldna" í fararbroddi. Keflvíkingar áttu náðugan dag, réttara sagt kvöld, á Sunnubrautinni þar sem þeir unnu auðveldan sigur á fallistum KFÍ 115-68.
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024