Njarðvíkingar deildarmeistarar
Síðasta umferð EPSON deildarinnar var leikin síðasta föstudag og tryggðu Njarðvíkingar sér deildarmeistaratitilinn með sigri í Keflavík 70-80 í leik sem var góður forsmekkur að úrslitakeppninni sem hefst í kvöld. Hin toppliðin tvö sigruðu einnig, Grindavík vann Tindastól á Króknum 80-86 og Haukarnir burstuðu KFÍ 110-75, en það var til einskis. Njarðvíkingar geta vel við unað, liðið varð fyrir áfalli við fráfall Örlygs Sturlusonar á miðju tímabili og nokkuð víst að áfangasigurinn er að einhverju leiti tileinkaður honum. Njarðvíkingar enduðu með 36 af 44 stigum mögulegum og það þrátt fyrir afar takmarkað framlag erlendra leikmanna liðsins. Samtals fimm erlendir leikmenn hafa leikið með liðinu, það sem af er, og skilaði Riley Inge t.a.m. aðeins tveimur stigum í hús gegn Keflavík (0-10 í skotum).