Njarðvíkingar byrjaðir að kynda upp fyrir stórleikinn
Njarðvíkingar eiga einn einn stórleikinn núna um helgina en á sunnudag munu þeir grænu taka á móti Vesturbæjarstórveldinu KR í sextán liða úrslitum Mjólkurbikars karla í knattspyrnu.
Njarðvík bar eftirminnilega sigurorð af nágrönnum sínum í Keflavík í 32 liða úrslitum fyrr í sumar með fjórum mörkum gegn einu á meðan KR vann Stjörnuna 3:0.
Stemmningin á leik Keflavíkur og Njarðvíkur var einstök enda flykktust bæjarbúar á völlinn og ríflega 1.200 manns sáu 2. deildarlið Njarðvíkur fara áfram í sextán liða úrslitin. Nú ætla Njarðvíkingar að endurtaka leikinn og mæta fullir sjálfstrausti eftir stórsigur í toppslag deildarinnar sem lauk með 6:0 sigri en spurning er hvort KR-ingar séu vængbrotnir enda töpuðu þeir illa, 4:0, fyrir Blikum í Bestu deildinni. Síðast þegar þessi lið mættust fóru KR-ingar með sigur af hólmi, 3:0, en það var í sömu bikarkeppni fyrir þremur árum.
Leikur Njarðvíkur og KR hefst kl. 19.45 og verða grillaðir hamborgara og kaldir drykkir í boði fyrir leik.
Njarðvíkingar hafa tekið saman skemmtilegt myndskeið sem má sjá í spilaranum hér að neðan.