Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Íþróttir

Njarðvíkingar búnir að ráða Bjarna og Hólmar Örn
Hólmar Örn Rúnarsson og Bjarni Jóhannsson hafa tekið við Njarðvíkingum. VF-myndir: Pket
Jóhann Páll Kristbjörnsson
Jóhann Páll Kristbjörnsson skrifar
föstudaginn 6. nóvember 2020 kl. 16:17

Njarðvíkingar búnir að ráða Bjarna og Hólmar Örn

Knattspyrnudeild Njarðvíkur var rétt í þessu að ganga frá ráðningu Bjarna Jóhannssonar og Hólmars Arnar Rúnarsson sem aðalþjálfara meistaraflokks karla til næstu tveggja ára.

Framundan er metnaðarfullt starf hjá Njarðvíkingum en með þessari ráðningu er stefnan tekin beint upp í Lengjudeildina. Bjarni Jóhannsson er einn reynslumesti knattspyrnuþjálfari landsins og reynsla hans á efalaust eftir að reynast Njarðvíkingum happadrjúg. Meðal þeirra liða sem Bjarni hefur stýrt eru Grindavík, ÍBV, KA, Stjarnan og nú síðast Vestri á Ísafirði. Hólmar Örn, eða Bói eins og hann er jafnan kallaður, steig sín fyrstu skref sem aðalþjálfari meistaraflokks í ár þegar hann stýrði Víðisliðinu samhliða því að leika með því. Nú ætlar Bói að leggja knattspyrnuskóna á hilluna og einbeita sér alfarið að þjálfun.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024
Frá undirritun samnings knattspyrnudeildar Njarðvíkur við þá Hólmar Örn Rúnarsson (t.v.) og Bjarna Jóhannsson (t.h.) í dag, á milli þeirra er Gylfi Gylfason, formaður knattspyrnudeildar Njarðvíkur.


Hér má sjá tilkynningu knattspyrnudeildar Njarðvíkur:

Stjórn knattspyrnudeildar Njarðvíkur hefur ákveðið að ráða Bjarna Jóhannsson og Hólmar Örn Rúnarsson sem aðalþjálfara meistaraflokks félagsins til næstu tveggja ára. Stjórn deildarinnar er virkilega spennt fyrir innkomu Bjarna og Hólmars en það þarf varla að kynna þá fyrir knattspyrnuunnendum hér á landi. Bjarni lét af störfum sem aðalþjálfari Vestra undir lok tímabils og Hólmar lét sömuleiðis af störfum sem spilandi aðalþjálfari Víðis í Garði. Stjórn Njarðvíkur hefur trú á að Bjarni og Hólmar geti lyft knattspyrnunni í Njarðvík á næsta stig, þar sem knattspyrnan í Njarðvík á heima.

Bjarni og Hólmar taka við virkilega góðu búi af fráfarandi þjálfara okkar, Mikael Nikulássyni. Mikael var ráðinn í starf aðalþjálfara Njarðvíkur síðasta vetur og skilaði góðum árangri eftir að hafa tekið við erfiðu búi. Lið Njarðvíkur endaði í fjórða sæti 2. deildar í sumar og enn í séns að komast upp um deild þegar mótið var blásið af. Stjórn knattspyrnudeildarinnar þakkar Mikael fyrir vel unnin störf í þágu félagsins og óskar honum velfarnaðar í framtíðar störfum sínum.

Stjórn knattspyrnudeildar Njarðvíkur.


BjarnaBóarnir í Njarðvík

Því var slegið upp í gamni á fréttadeild Víkurfrétta að BjarnaBóarnir væri ágætis viðurnefni á þjálfarateymi Njarðvíkinga og með þessari tvöföldu ráðningu væri knattspyrnudeildin að leggja sitt að mörkum til að slá á það mikla atvinnuleysi sem herjar á Suðurnes en bæði Bjarni og Bói eru búsettir hér.

Í spilaranum hér að neðan má sjá viðtal Víkurfrétta við þá Bjarna og Bóa eftir undirritun samningsins.