Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Íþróttir

Njarðvíkingar bitu frá sér
Maciek Baginski var bestur í leiknum í gær. Mynd úr safni Víkurfrétta
Jóhann Páll Kristbjörnsson
Jóhann Páll Kristbjörnsson skrifar
laugardaginn 24. apríl 2021 kl. 11:23

Njarðvíkingar bitu frá sér

Njarðvík mætti Grindavík í gær í Domino's-deild karla í körfuknattleik. Njarðvíkingar, sem þurftu nauðsynlega á sigri að halda eftir slæma sex leikja taphrinu, unnu góðan þriggja stiga sigur.

Það blés ekki byrlega með Njarðvík í byrjun leiks og heimamenn í Grindavík náðu mest tólf stiga forystu (27:15) í fyrsta leikhluta.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Snemma í öðrum leikhluta juku Grindvíkingar muninn í fimmtán stig (36:21) en þá tóku Njarðvíkingar að vinna sig inn í leikinn jafnt og þétt og höfðu minnkað muninn í 49:42 þegar blásið var til hálfleiks.

Seint í þriðja leikhluta náðu Njarðvíkingar að komast yfir, 59:61, en Marshall Lance Nelson setti niður þriggja stiga körfu og kom Grindavík aftur yfir. Þeir leiddu 65:61 fyrir fjórða leikhluta.

Logi Gunnarsson gerði þriggja stiga körfu í byrjun fjórða leikhluta og minnkaði muninn í eitt stig. Allt í járnum. Grindvíkingar brutu þá á Mario Matasovic þegar hann stal boltanum og fékk tvö vítaköst sem Mario setti niður og kom Njarðvík aftur yfir.

Grindvíkingar náðu að jafna í 66:66 en Njarðvíkingar komust aftur yfir og héldu forystunni út leikinn. Spennustigið var hátt og munaði yfirleitt einu til þremur stigum á liðunum en þegar upp var staðið lönduðu Njarðvíkingar mikilvægum sigri, 91:94.

Maciek Baginski fór fyrir liði Njarðvíkur og gerði 26 stig. Þá voru þeir Kyle Johnson og Mario Matasovic einnig góðir.

Dagur Kár Jónsson var bestur í liði heimamanna og Joonas Jarveleinen átti einnig ágætis leik.

Grindavík: Dagur Kár Jónsson 22/6 stoðsendingar, Joonas Jarvelainen 21/8 fráköst/6 stoðsendingar, Ólafur Ólafsson 14/6 fráköst/6 stoðsendingar, Amenhotep Kazembe Abif 13/4 fráköst, Kristinn Pálsson 11/8 fráköst, Marshall Lance Nelson 8/4 fráköst/6 stoðsendingar, Björgvin Hafþór Ríkharðsson 2/6 fráköst, Jens Valgeir Óskarsson 0, Bragi Guðmundsson 0, Kristófer Breki Gylfason 0, Jóhann Árni Ólafsson 0, Þorleifur Ólafsson 0.

Njarðvík: Maciek Stanislav Baginski 26, Kyle Johnson 17/8 fráköst, Mario Matasovic 15/6 fráköst/6 stoðsendingar, Antonio Hester 11/9 fráköst, Logi  Gunnarsson 11, Rodney Glasgow Jr. 8/8 stoðsendingar, Ólafur Helgi Jónsson 6/4 fráköst, Veigar Páll Alexandersson 0, Bergvin Einir Stefánsson 0, Baldur Örn Jóhannesson 0, Rafn Edgar Sigmarsson 0, Jón Arnór Sverrisson 0.