Njarðvíkingar án Hardy og Baker í kvöld
Njarðvíkurstúlkur verður án bandarísku leikmannanna sinna, þeirra Shanae Baker og Lele Hardy í kvöld þegar liðið mætir Fjölni í Iceland Expressdeild kvenna í körfubolta. Leikmennirnir eru nú staddar í Bandaríkjunum en svo virðist sem að eitthvað hafi farið úrskeiðis í pappírsvinnunni þegar kom að því að framlengja dvöl þeirra hérlendis.
Ekki liggur fyrir hvort búið verði að kippa þessu í liðinn fyrir næstu helgi en þá mætir Njarðvík liði Vals á útivelli. Svo gæti því farið að þær Baker og Hardy, sem hafa verið mjög atkvæðamiklar, missi af tveimur deildaleikjum.
Njarðvíkingar leika gegn Fjölni klukkan 19:15 á heimavelli sínum en Keflvíkingar leika gegn Snæfellingum á Stykkishólmi þegar 13. umferð fer fram í kvöld.