Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Íþróttir

Njarðvíkingar að missa dampinn í 2. deildinni
Frá leik UMFN og Hugins síðustu helgi
Fimmtudagur 25. júní 2015 kl. 07:00

Njarðvíkingar að missa dampinn í 2. deildinni

,,Lak úr blöðrunni, en hún er ekki sprungin." -segir Guðmundur Steinarsson

Eftir frábæra byrjun á Íslandsmótinu hafa Njarðvíkingar tapað þremur leikjum í röð í 2. deild karla en Njarðvíkingar töpuðu mikilvægum leik í toppbaráttunni um liðna helgi er liðið lá heima gegn Huginn, 0-1. Njarðvíkingar eru þar með dottnir niður í 5. sæti deildarinnar þar sem þeir eru með 10 stig og hafa fjarlægst toppliðin hratt síðustu vikur.

,,Byrjunin virðist hafa stígið okkur aðeins til höfuðs. Það hefur verið markaþurrð hjá okkur sem við þurfum að breyta hið snarasta. En blaðran er ekki sprungin, bara smá loft sem lak úr henni.” -sagði Guðmundur Steinarsson þjálfari Njarðvíkinga í samtali við Víkurfréttir.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Síðasti leikur var mikilvægur fyrir ykkur og tap í honum gerir það að verkum að Huginn skýtur sér 6 stigum uppfyrir ykkur og skilur ykkur eftir í miðri deild. Leikurinn var mikill baráttuleikur þar sem að eitt mark skildi liðin að í lokin. Hvernig sérðu þann leik svona eftir á og hvað hefði þurft að ganga betur í ykkar aðgerðum?

,,Svona eftir á þá fannst mér eitt og annað jákvætt hjá okkur, en við erum ekki að búa til nægilega mikið af marktækifærum. Því þurfum við að breyta sem fyrst. Tel að um leið og við förum að finna leiðina að markinu að þá fara hjólin að snúast hjá okkur aftur.”

Hvernig bregðast menn við í mótlætinu sem herjar á liðið þessa dagana?

,,Hópurinn er samheldinn og menn eru ekkert að væla. Það þýðir lítið að velta sér uppúr því sem er búið og gert. Hér horfum við fram á veginn og gerum okkur eins tilbúna og hægt er til að takast á við næsta verkefni.”

Næsti leikur er ekki síður mikilvægur þar sem að þið sækið KV heim og gulrótin þeirra augljóslega sú að geta farið uppfyrir ykkur í deildinni. Hvernig leggið þið þann leik upp og kemurðu til með að gera breytingar á liðinu?

,,Við förum í alla leiki til að sækja til sigurs, á því verður enginn breyting. Við Ómar þurfum að fara yfir það hvernig við ætlum að sækja 3 stig í Vesturbæinn á föstudaginn. Það er nú þannig að þegar lið tapa leikjum þá þarf oft að gera breytingar til að finna sigurblönduna aftur. Þannig að það ætti ekki að koma neinum á óvart ef það verða breytingar.”