Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Íþróttir

Njarðvíkingar að klára að semja við alla sína leikmenn
Við undirritun leikmanna- og þjálfarasamninga á dögunum
Miðvikudagur 20. maí 2015 kl. 17:20

Njarðvíkingar að klára að semja við alla sína leikmenn

ætla að byggja ofan á árangur nýliðins tímabils

Stjórn Kkd Njarðvíkur hefur náð samkomulagi við flesta leikmenn karla- og kvennaliðs félagsins fyrir næsta tímabil. Félagið á enn í viðræðum við örfáa leikmenn, munu þau mál skýrast á allra næstu dögum. Þjálfarar félagsins verða áfram hjá klúbbnum, Friðrik Rúnarsson, Teitur Örlygsson & Agnar Már Gunnarsson.

Kvennalið Njarðvíkur átti frábært tímabil þar sem þær urðu deildarmeistarar 2015 og komust jafnframt í 4 liða úrslit bikarkeppninnar. Framtíðin er björt í kvennaboltanum hjá UMFN enda margir frábærir leikmenn sem eru nú að skila sér frá yngri flokka starfi félagsins upp í meistaraflokkinn.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Karlalið UMFN háði eftirminnilegar rimmur við lið Stjörnunnar í 8 liða úrslitum og einnig við lið KR í 4 liða úrslitum um Íslandsmeistaratitilinn 2015. UMFN tapaði rimmunni gegn sterku lið KR sem síðar um vorið hampaði Íslandsmeistaratitlinum.

Eins og verið hefur undanfarin ár mun UMFN byggja sín lið áfram á uppöldnum leikmönnum sem skila sér á hverju ári frá kraftmiklu yngri flokka starfi félagsins. Félagið leggur gríðarlega áherslu á góð gæði við þjálfun frá yngstu stigum til meistaraflokks en á undanförnum árum hefur félagið státað af frábærum þjálfurum. Verður þar engin breyting á til næstu ára. Sumarið verður m.a. notað til styrktaræfinga rétt eins og síðustu ár enda státar félagið af Ólafi Hrafni, hæfum og vel menntuðum styrktarþjálfara sem er nú á sínu 3ja ári hjá klúbbnum. Verður tryggt að leikmenn félagsins komi vel undan sumri og klárir í átök næsta keppnistímabils.

Stjórn félagsins vill nota tækifærið og þakka þeim mikilvægu sjálfboðaliðum sem lögðu hönd á plóginn við störf félagsins á sl. tímabili. Jafnframt þakkar stjórn félagsins hinum fjölmörgu öflugu fyrirtækjum og einstaklingum sem styrkt hafa starf deildarinnar fjárhagslega á umliðnum árum en rekstur félagsins stendur traustum fótum.

Að lokum þakkar stjórn kkd UMFN leikmönnum sínum fyrir traustið sem endurspeglast í þeim fjölda samninga sem nú þegar hafa verið undirritaðir.