Njarðvíkingar á botninum eftir jafntefli
Njarðvíkingum tókst ekki að bera sigurorð af Völsungi í mikilvægum fallbaráttuslag í 2. deild karla í knattspyrnu í gær. Lokatölur leiksins urðu 2-2 þar sem Njarðvíkingar jöfnuðu í uppbótartíma með vítaspyrnu Andra Fannars Freyssonar. Gestirnir frá Húsavík léku einum færri frá sjöundu mínútu leiksins en þá fékk leikmaður þeirra að líta rauða spjaldið. Þrátt fyrir það náðu þeir forystu í leiknum um miðjan fyrri hálfleik. Njarðvíkingar jöfnuðu strax á fyrstu mínútu seinni hálfleiks en Völsungar gerðu þá sjálfsmark. Aftur komust gestirnir yfir eftir að vítaspyrna hafði verið dæmt á Njarðvíkinga. Eins og áður segir var það svo Andri Fannar sem bjargaði stigi í lokin fyrir Njarðvíkinga. Þeir grænklæddu þurftu nauðsynlega á sigri að halda í leiknum enda sitja Njarðvíkingar á botni deildarinnar með 14 stig þegar fjórar umferðir eru eftir.