Njarðvík vann Teit og félaga í Ljónagryfjunni
Njarðvíkingar fóru með nauman sigur úr Ljónagryfjunni í kvöld gegn Teit Örlygssyni og lærissveinum hans í Stjörnunni. Það verður því einhver bið fyrir Teit að fara með Stjörnusigur frá gamla heimavelli hans þar sem hann gekk vanalega út með sigur í farteskinu. 72: 67 var lokaniðurstaða í mjög svo hörðum leik.
Magnús Þór opnaði leikinn með þrist eftir að Friðrik Stefánsson hafði “smurt” einn í spjaldið frá Fannari Helgasyni. Justin Shouse var hinsvegar fljótur að svara fyrir gestina. Njarðvík náði svo frumkvæðinu í leiknum en aldrei neinni yfirgnæfandi forystu. Mikið puð fór hjá báðum liðum strax í upphafi leiks að tuða við dómara leiksins og Teitur Örlygsson og Friðrik Stefánsson voru strax komnir með tæknivíti á bakið í fyrsta fjórðung. Njarðvíkingar leiddu 19:17 eftir fyrsta fjórðung en undir fjórðunginn var skotnýting Njarðvíkinga gersamlega að bregðast þeim.
Áfram hélt baráttan í öðrum leikhluta og Djorde Pantelic setti niður ævintýralegan þrist spjaldið ofaní og náðu þar með Stjörnumenn forystunni í fyrsta skiptið í leiknum. Uppúr ætlaði að sjóða á 4 mínútu annars leikhluta þegar að Justin Shouse og Guðmundi Jónssyni lenti saman. Báðir fengu þeir óíþróttamannslega villu og dómarar leiksins sáu fyrir sér nokkuð erfiðan dag. Stuttu síðar uppskar Djorde Pantelic tæknivillu fyrir munbrúk. Magnús Gunnarsson þakkaði fyrir sig og setti niður 4 víti og Njarðvíkingar komnir í 8 stiga forskot. Maggi bætti svo við einum tvist og Njarðvíkingar komnir í 10 stiga forystu. Njarðvíkingar hafa hugsanlega leyst leikstjórnanda stöðuna af því það var Nick Bradford sem var farinn að stjórna leik liðsins af kjölfestu og leysti hann hlutverkið nokkuð vel af. Njarðvíkingar leiddu verðskuldað í leikhléi með 9 stigum, 44:35.
Njarðvíkingar hófu seinni hálfleik á góðri vörn en Stjörnumenn voru meira í því að fá á sig óþarfa villur. Leikurinn var harður og mikið var dæmt. Fljótlega í fyrri hálfleik var Jovan komin með fjórar villur og var hann hvíldur. Njarðvíkingar voru að spila sóknarleik sinn ágætlega og komust í 15 stiga forskot í stöðunni 50:35. Djorde Pantelic fékk sína fimmtu villu þegar 2 mínútur voru eftir af leikhlutanum en kappinn hafði reynst Sjörnumönnum vel í vörninni og í frákasta baráttunni. Aðeins 10 sekúndum síðar var Jovan Zdraveski komin einnig með 5 villur og því virkilega farið að syrta í álinn hjá Teit Örlygssyni í þessum leik. Njarðvíkingar leiddu eftir þrjá leikhluta 57:46.
Í síðasta fjórðung skiptust liðin á því að skora og munurinn hélst því alltaf í þessu 7 til 10 stig. Justin Shouse var allt í öllu í liði gestanna og hélt þeim gersamlega á floti. Stigaskor heimamanna skiptist betur niður á mannskapinn þó að Magnús GUnnarsson hafi verið drjúgur. Þegar 2 mínútur voru eftir var munurinn aðeins 6 stig og mikilvægt fyrir heimamenn að sigra með í það minnsta kosti 8 stigum þar sem þeir töpuðu fyrri leik liðanna í deildinni með 7 stigum. Það var hinsvegar Justin Shouse sem setti niður þrist og skömmu sienna fékk Jóhann Ólafsson á sig klaufalega tæknivillu. Shouse á línuna og minnkaði muninn niður í 1 stig, 65:64. Njarðvíkingar náðu hinsvegar að klára leikinn en voru í raun kærulausir í síðasta leikhlutanum þegar þeir hleyptu Stjörnumönnum aftur inn í leikinn.
Umfjöllun og ljósmynd: karfan.is