Njarðvík vann Keflavík í hörkuleik
Njarðvíkingar unnu Íslalandsmeistara Keflavíkur í Iceland Express deildinni í körfubolta í Ljónagryfjunni í kvöld. Lokatölur urðu 77-75 en staðan í hálfleik var 47-32.
Njarðvíkingar voru miklu betri framan af og náðu mest 31 stigs forskoti í þriðja leikhluta, 64-33 og höfðu gestirnir þá bara skorað eitt stig og aðeins 3 mínútur eftir af leikhlutanum. Fátt bendi til að Keflavík væri að komast í gang, sóknarleikurinn var slakur en með hörku og seiglu komust þeir inn í leikinn í fjórða leikhluta og voru nálægt því að jafna í blálokin. Logi Gunnarsson skoraði síðustu stig leiksins úr vítaskotum og gulltryggði sigur UMFN.
Síðustu mínúturnar voru æsispennandi og Keflvíkingar söxuðu all svakalega niður þetta stóra forskot heimamanna. Nokkrar þriggja stiga körfur frá Gunnari Stefáns, Gunnari Einars og Herði Vilhjálms ásamt nokkrum stolnum boltum settu mikla spennu í leikinn en það vantaði smá meiri tíma fyrir meistarana til að jafna og komast yfir. Heimamenn innbyrtu sigur á erkifjendum sínum. Stóri bróðir, Valur, lagði Sigurð að velli í skemmtilegri viðureign en þeir Ingimundarsynir hafa ekki mæst áður með þessi lið.
Flestir áttu von á sigri Keflavíkur því liðið er sterkara á pappír. Í gegnum tíðina hefur pappír ekki haft mikið að segja í viðureignum þessara liða og þannig var það í kvöld. Heimamenn byrjuðu leikinn með látum og þeir náðu strax forskoti og leiddu með sex stigum eftir fyrsta leikhluta, 24-18. Þeir héldu áfram og náðu að auka forskotið í fimmtán stig áður en flautað var til leikhlés. Ef ekki hefði komið til frábær leikur Sverris Sverrissonar í Keflavík er ekki gott að segja hvað hefði gerst því hann var sá eini sem sýndi sitt rétta andlit. Um miðjan annan leikhluta setti fyrrverandi Keflvíkingurinn Sævar Sævarsson niður þrjár þrista í röð fyrir Njarðvík og gamla stemmningin rauk upp á þétt setnum pöllunum í Ljónagryfjunni. Í þriðja leikhluta jókst munurinn og varð mestur 31 stig eins og fyrr segir og stuðningsmenn Keflavíkur trúðu ekki sínum eigin augum. Annar fyrrverandi Keflvíkingur, Maggi Gunn, tók til sinna ráða og raðaði niður nokkrum körfum, aðallega þristum og saltaði í sár Keflvíkinga. Sigurður Ingimundarson setti unga peyja inn á þrátt fyrir slæma stöðu og skipti ört inn á þegar staðan var slæm til að reyna finna andann í liðið og pressaði heimamenn stíft. Það tókst og með mikilli baráttu og mörgum fallegum körfum tókst þeim að komast inn í leikinn en aðeins of lítið, of seint, eins og segir í einhverjum ensku texta, „to little, to late“.
„Sóknin var alltof slök hjá okkur og það gengur ekki. Það er ekki oft sem við skorum ekki nema 30 stig í hálfleik. Okkur vantaði síðan bara tvær mínútur í viðbót, þá hefðum við klárað þetta,“ sagði Sverrir Þór Sverrisson, besti leikmaður Keflavíkur í leiknum.
Hjörtur Hrafn Einarsson, Njarðvíkingur var í skýjunum eftir leikinn og sagði að það hafi verið sætt að innbyrða sigur á nágrönnunum. „Ég er stoltur af ungu strákunum og liðinu í heild. Við börðumst vel og ætluðum okkur að vinna. Það tókst og við getum verið ánægðir,“ sagði Hjörtur sem skoraði 12 stig, þar af þrjá þrista í fyrri hálfleik og lék vel en Logi Gunnarsson skoraði mest hjá UMFN, 25 stig, Magnús Gunnarsson var næstur með 16 stig. Friðrik Stefáns og Sævar Sævarsson skoruðu 9 stig hvor. Hjá Keflavík var Sverrir Þór með 25 stig. Hörður Vilhjálmsson var góður á lokakaflanum og setti niður 17 stig, Gunnar Einarsson var með 11 stig og þeir Jón Norðdal og Gunnar Stefáns 9 stig hvor.Athygli vekur að Sigurður Þorsteinsson, miðherji Keflavíkur skoraði aðeins tvö stig og munar um minna.
Friðrik Stefánsson reynir að troða en tókst ekki.
Sjáðu Gunni, þessi er á leiðinni ofan í körfuna hjá ykkur...Maggi Gunn með skotskífuna uppi
og tunguna úti. Stuttu seinna steinlá þessi bolti ofan í Keflavíkurkörfunni.
Njarðvíkingurinn Hjörtur H. Einarsson lék vel fyrir Njarðvík í kvöld.
Tveir góðir á ferð. Logi Gunn reynir að stoppa Hörð Vilhjálmsson.