Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Íþróttir

 Njarðvík vann Keflavík í æsispennandi leik
Fimmtudagur 8. mars 2012 kl. 22:04

Njarðvík vann Keflavík í æsispennandi leik

Njarðvíkingar styrktu stöðu sína í baráttu um sæti í úrslitum Iceland Express deildarinnar í körfu þegar þeir lögðu granna sína úr Keflavík í æsispennandi og mjög skemmtilegum leik í Ljónagryfjunni í kvöld. Lokatölur urðu 95-93 en Keflavík leiddi í hálfleik með 9 stiga mun.
Keflvíkingar leiddu mest allan leikinn og heimamenn þurftu að elta þá uppi. Þeir komust svo yfir í blálokin þegar stutt var til leiksloka og gestirnir þurftu að elta þá síðustu mínútuna. Magnús Gunnarsson fékk 3 víti þegar nokkrar sekúndur voru til leiksloka og þurfti að setja öll niður til að jafna en skoraði ekki úr því fyrsta en skot númer tvö fór niður. Það þriðja fór í körfuhringinn en heimamenn náðu frákastinu og fögnuðu tveggja stiga sigri vel og innilega en gestirnir fóru niðurlútir af velli.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Magnús Gunnarsson var ekki heitur í kvöld og einhver af blaðamönnunum sagði að Keflavík ynni ekki leiki þegar Maggi væri ekki í stuði. Hvort sem það er rétt eða ekki þá átti það við í þessum leik. Jón Halldór Eðvaldsson, aðstoðarþjálfari Keflavíkur sagði að það væri ekki sanngjarnt að horfa bara á lágt stigaskor hjá Magnúsi (5 stig) því hann gerði alltaf mikið í öðrum þáttum leiksins. „Þetta var ekki nógu gott hjá okkur í kvöld. Við lentum í vandræðum í fráköstunum. Þeir voru að fá of mikið af skotmöguleikum í annað sinn í sóknum. Núna er hver leikur þýðingarmikill í baráttunni fyrir úrslitakeppnina. Við hrynjum eitthvað niður deildina eftir þetta tap sem er ekki gott“.

Travis Holmes var Keflvíkingum erfiður og skoraði 41 stig og tók 12 fráköst en næstur honum í stigaskori hjá Njarðvík var hinn efnilegi Maciej Baginski með 15 stig og jafnmörg fráköst. Hann tók m.a. þrjá þrista í röð þegar Njarðvíkingar voru að minnka muninn í þriðja leikhluta.


Michael Parker var betri en enginn hjá Keflavík og skoraði 35 stig og tók 8 fráköst. Jarrodd Cole var með 25 stig og 8 fráköst og Arnar Freyr Jónsson átti sennilega sinn besta leik eftir innkomu í Keflavíkurliðið eftir meiðsli og kláraði 19 stig og sendi 7 stoðsendingar.

Friðrik Ragnarsson, annar þjálfara Njarðvíkingur sagði sigurinn þýðingarmikinn og gæti haft mikið að segja í baráttunni um sæti í úrslitakeppninni. „Þetta var alvöru rimma í kvöld, skemmtilegur leikur og sigurinn gat endað hvorum megin sem var. Við náðum yfirhöndinni í blálokin og stigum upp á mikilvægum tíma“.

Travis Holmes skoraði 41 stig í kvöld og var sjóðheitur.

Valur Orri Valsson með boltann.

Elvar Már Friðriksson stóð sig vel í Njarðvíkurliðinu og sést hér og á efstu mynd í baráttunni. VF-myndir/hilmarbragi. Texti: pket.