Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Íþróttir

Njarðvík úr leik þrátt fyrir sigur í Þorlákshöfn
Þriðjudagur 20. nóvember 2012 kl. 01:21

Njarðvík úr leik þrátt fyrir sigur í Þorlákshöfn

Njarðvík vann í gærkvöldi góðan sigur á Þór frá Þorlákshöfn, 83-88, í Lengjubikarnum. Leikurinn var..

Njarðvík vann í gærkvöld góðan sigur á Þór frá Þorlákshöfn, 83-88, í Lengjubikarnum. Leikurinn var úrslitaleikur um hvort liðið færi í undanúrslit í keppninni. Njarðvík varð að vinna leikinn með 9 stiga mun til að verða í efsta sæti D-riðils á innbyrðisviðureign. Það gekk hins vegar ekki og því mun Þór Þorlákshöfn leika til undanúrslita í Lengjubikarnum um næstu helgi. Bæði liði endurðu með 8 stig í riðlinum.

Njarðvíkingar byrjuðu leikinn betur og voru með undirtökin nánast allan tímann. Varnarleikur Þórsara komst aldrei á almennilegt flug og Marcus Van gerði Þórsurum virkilega erfitt fyrir undir körfunni á báðum endum vallarins.

Njarðvíkingar leiddu með 6 stigum í hálfleik, 41-47, en þrátt fyrir það stóðu áhorfendur í Þorlákshöfn á fætur og klöppuðu þegar að flautan gall, því Ben Smith negldi niður ævintýralegri flautukörfu langt fyrir aftan miðju.

Þórsarar voru aldrei langt frá Njarðvíkingum og náðu raunar að komast yfir á tímabili í fjórða leikhluta. Þegar að þeir voru hinsvegar komnir yfir ætluðu þeir að stinga af og reyndu ótímabær skot í sókninni, sem skiluðu afar litlu. Staðan var 83-83 þegar rúmar 6 sekúndur voru eftir á klukkunni og þá ákváðu Þórsarar að brjóta og senda Nigel Moore á vítalínuna. Hann skoraði úr báðum og Njarðvíkingar með tveggja stiga forystu.

Þá tók Benedikt leikhlé og Ben Smith átti að taka úrslitaþrist til að hafa sigurinn af Njarðvíkingum, en hann vildi ekki í. Þá tók Elvar Már Friðriksson frákast og kastaði boltanum upp í loftið rétt fyrir utan sinn eigin vítateig. Boltinn sveif yfir völlinn og fór svo á undraverðan hátt ofan í körfuna. Mögnuð karfa hjá stráknum.

Áhorfendur í Vatnhöllinni stóðu þá bara á fætur og klöppuðu fyrir þessari glæsilegu körfu og einnig fyrir því að Þórsliðið skuli vera komið með farmiða í Stykkishólm um næstu helgi á úrslitahelgi Lengjubikarsins. Njarðvíkurliðið vann sinn annan sigur í Þorlákshöfn þetta tímabilið, en það vantaði fjögur stig upp á að það skipti hreinlega einhverju máli.

Stig Þórs: Benjamin Curtis Smith 24/6 fráköst/6 stoðsendingar, David Bernard Jackson 21/4 fráköst, Grétar Ingi Erlendsson 13/10 fráköst, Guðmundur Jónsson 9, Darri Hilmarsson 7/5 stolnir, Baldur Þór Ragnarsson 7/7 stoðsendingar, Emil Karel Einarsson 2.

Stig Njarðvíkur: Nigel Moore 24/10 fráköst/6 stoðsendingar, Marcus Van 20/14 fráköst/3 varin skot, Elvar Már Friðriksson 15/7 fráköst, Oddur Birnir Pétursson 12/5 fráköst, Friðrik E. Stefánsson 11, Hjörtur Hrafn Einarsson 6.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Umfjöllun og mynd/Karfan.is