Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Íþróttir

Njarðvík tryggði sér oddaleik í rimmunni við Val
Sigurbjörn Daði Dagbjartsson
Sigurbjörn Daði Dagbjartsson skrifar
laugardaginn 11. maí 2024 kl. 20:17

Njarðvík tryggði sér oddaleik í rimmunni við Val

Njarðvíkingar sýndu úr hverju þeir eru gerðir og tryggðu sér oddaleik í rimmu sinni við Valsmenn, eftir sigur í spennuþrungnum leik í Ljónagryfjunni, 91-88. Valsmenn leiddu með sex stigum í hálfleik, 47-53 en Njarðvíkingar náðu sér vel á strik í seinni hálfleik og unnu spennusigur.

Fyrri hálfleikur var í járnum til að byrja með en undir lokin náðu Valsmenn að slíta sig aðeins frá heimamönnum og leiddu þegar komið var inn í hálfleiks-teið, 47-53. Sem fyrr var það Dwayne Lautier sem var atkvæðamestur Njarðvíkinga, var kominn með 13 stig. Chaz Williams sem hafði ekki fundið sig í síðustu leiki sýndi lífsmark, var kominn með 8 stig og 7 stoðsendingar. Veigar Páll Alexandersson kom sterkur inn af bekknum og var kominn með 9 stig.

Njarðvíkingar komu sterkir inn í seinni hálfleikinn og unnu þriðju leikhlutann með 5 stigum og því munaði bara einu stigi fyrir lokaleikhlutann, 71-72 og ljóst að þessi leikur myndi bjóða upp á spennu fram á lokaflaut!

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Segja má að Þorvaldur Árnason, leikmaður Njarðvíkur, hafi skilið á milli feigs og ófeigs í lokaleikhlutanum en hann setti tvo mjög stóra þrista sem kom augnablikinu til Njarðvíkinga og náðu þeir að landa mikilvægum sigri sem tryggir körfuknattleiksunnendum um allt land það sem þeir óskuðu eftir, oddaleik að Hlíðarenda á þriðjudagskvöld.

Fyrrnefndur Þorvaldur fær nafnbótina maður leiksins hjá blaðamanni, hann var frábær í fjórða leikhlutanum þegar mest á reyndi. Dwayne var sömuleiðis góður og endaði stigahæstur Njarðvíkinga með 22 stig og gaf 5 stoðsendingar. Sem betur fer fyrir Njarðvíkinga, náði Chaz Williams sér aftur á strik og átti hann sömuleiðis stóran þátt í fjórða leikhlutanum þegar hann braust tvisvar upp að körfunni og skoraði, hann endaði með 12 stig og gaf 9 stoðsendingar.

Það verður spennandi að sjá hvort Njarðvíkingar tryggja Suðurnesja-rimmu í úrslitunum en oddaleikurinn fer fram á þriðjudagskvöld eins og áður sagði. Í hinni rimmunni eigast við Grindavík og Keflavík og er fjórði leikur liðanna í Keflavík annað kvöld.

Myndirnar tók m.a. JBÓ.

„Súper“ Mario Matasovic u.þ.b. að henda í glæsilega viðstöðulausa troðslu.