Njarðvík þarf að treysta á Keflavík
Fimm lið gætu endað jöfn með 22 stig
Lokaumferð Domino’s deildar karla í körfubolta fer fram í kvöld. Njarðvíkingar verða að vinna í Þorlákshöfn en á sama tíma verða þeir að treysta á að grannar þeirra í Keflavík leggi ÍR-inga á sterkum útivelli. Njarðvíkingar eru í níunda sæti deildarinnar með 20 stig líkt og Þórsarar frá Akureyri og ÍR sem eru í næstu sætum fyrir ofan. Þórsarar leika gegn Snæfell sem hefur tapað öllum leikjum tímabilsins til þessa, þannig að líklega ná Þórsarar í tvö stig þar. Innbyrðis standa ÍR og Þór betur en Njarðvík.
Ef Keflavík tapar og Njarðvík vinnur þá munu fimm lið standa jöfn með 22 stig. Þór Þ., Keflavík, Þór A. ÍR og Njarðvík. Þessi lið verða þá sett upp í sérstaka deild þar sem innbyrðis viðureignir þeirra gilda. Þar standa Njarðvíkingar illa og þurfa því að treysta á granna sína eða lánlausa Hólmara.