Njarðvík tapar fyrir ÍS
Njarðvík tapaði fyrir ÍS í kvöld í 1. deild kvenna í körfuknattleik 70-59.
Njarðvíkurstúlkur byrjuðu betur og höfðu 6 stiga forskot í hálfleik 28-34. Í þriðja leikhluta tóku ÍS-stúlkur stjórnina og komust 9 stigum yfir. Þær héldu forystunni til loka og unnu góðan sigur að lokum og tryggðu sæti sitt á toppi deildarinnar. Þær hafa 10 stig en Keflavík kemur næst með 8 stig, en þar á eftir kemur Njarðvík í þriðja sæti með 6 stig.
Njarðvík hitti illa úr 2ja stiga skotum sínum og er auðvelt að kenna innan við fjórðungs hittni um tapið auk þess sem ÍS tók mun fleiri fráköst og vörðu fjölda skota. Andrea Gaines var hafði algera yfirburði í Njarðvíkurliðinu og skoraði 26 stig, tók 8 fráköst og gaf 8 stoðsendingar, en þar á eftir kom Auður Jónsdóttir með 9 stig. Stigahæst ÍS stúlkna var Alda Jónsdóttir með 17 stig og þar á eftir kom Lovísa Guðmundsdóttir með 16 stig. Svandís Sigurðardóttir var öflug undir körfunni og tók 14 fráköst.