Njarðvík tapaði toppslagnum
Óöruggir Njarðvíkingar sjálfum sér verstir
Það var útlit fyrir hörkuleik þegar toppliðin tvö í 2. deild karla, Njarðvík og Kórdrengir, mættust á heimavelli Kórdrengja í gærkvöldi, bæði lið voru með fullt hús stiga fyrir leikinn. Fyrri hálfleikur var jafn en einhverrar taugaveiklunar og taktleysis virtist gæta í vörn Njarðvíkinga sem færðu Kórdrengjum tvö ódýr mörk á silfurfati og fyrir vikið voru þeir tveimur mörkum undir í hálfleik.
Í síðari hálfleik var mikið barist og Njarðvíkingar reyndu hvað þeir gátu til að minnka muninn en lánleysi þeirra var algert upp við mark andstæðinganna. Á 87. mínútu ráku Kórdrengir síðasta naglann í kistu þeirra grænklæddu og skoruðu sitt þriðja mark. Lokatölur 3:0 og Njarðvíkingar búnir að tapa sínum fyrstu stigum á Íslandsmótinu í ár.
Í kvöld taka Þróttarar á móti Haukum á Vogaídýfuvellinum í 2. deild karla og hefst leikurinn klukkan 19:15. Haukar hafa unnið báða sína leiki en Þróttur er á höttunum eftir sínum fyrsta sigri eftir tvö jafntefli.