Karlakór Kef kertatónleikar
Karlakór Kef kertatónleikar

Íþróttir

Njarðvík tapaði þriðja deildarleiknum í röð
Þriðjudagur 9. febrúar 2010 kl. 09:26

Njarðvík tapaði þriðja deildarleiknum í röð


Njarðvíkingar töpuðu þriðja deildarleiknum í röð þegar þeim tókst ekki að leggja topplið KR er liðin áttust við í gærkvöldi í IE-deild karla í körfuknattleik. KR sigraði með 12 stiga mun á heimavelli, 89-77.

Njarðvíkingar byrjuðu leikinn af krafti og komust í 7-2. KR-ingar voru ekkert á því að hleypa gestunum of langt og komust fljótlega yfir. Lokakafli leikhlutans var í höndum KR-inga sem leiddu með 9 stiga forystu í lok fjórðungsins, 27-18.
Njarðvíkingar skiptu yfir í svæðisvörn sem skilaði góðum árangri enda höfðu þeir unnið upp forskot KR þegar flautað var til hálfleiks og gott betur – voru með 6 stiga forystu, 50-44.
Magnús Þór Gunnarsson byrjaði svo seinni hálfleikinn með þriggja stiga körfu og staðan þar með orðin 55-44 fyrir Njarðvík. KR-ingum fór að hitna í hamsi eftir orðaskak Brynjars Þórs Björnssonar og Guðmundar Jónssonar. Það hleypti illu blóði í Brynjar sem tók leikinn í sínar hendur og minnkaði muninn í 53-57. Mikil harka var kominn í leikinn þegar hér var komið sögu og var hann jafn í lok þriðja leikhluta, 70-70.
Í fjórða leikhluta fór að síga á ógæfuhliðina fyrir Njarðvík sem áttu engin svör við feiknasterkum varnarleik KR-inga og snilldartöktum Brynjars Þórs Björnssonar. Hann skoraði 33 stig og fiskaði 8 villur á Njarðvíkinga.  Á fyrstu átta mínútum fjórða leihlutans skoruðu Njarðvíkingar aðeins þrjú stig. Lokatölur urðu 89-77 sem fyrr segir.

Jóhann Árni Ólafsson var atkvæðamestur í liði Njarðvíkinga með 19 stig. Nick Bradford og Magnús Þór Gunnarsson voru báðir með 16 stig.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024