Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Íþróttir

  • Njarðvík tapaði naumlega
    Helena Rafnsdóttir hér með boltann. VF-myndir: pket
  • Njarðvík tapaði naumlega
Jóhann Páll Kristbjörnsson
Jóhann Páll Kristbjörnsson skrifar
miðvikudaginn 20. október 2021 kl. 22:03

Njarðvík tapaði naumlega

Keflavík hafði betur gegn Grindavík

Nýliðar Njarðvíkur töpuðu sínum fyrsta leik í Subway-deild kvenna fyrr í kvöld þegar Valur komst yfir í Ljónagryfjunni undir lok leiks eftir kraftmikinn baráttuleik. Suðurnesjaliðin Keflavík og Grindavík mættust í seinni leik kvöldsins á heimavelli Keflvíkinga þar sem heimakonur höfðu góðan sigur.

Njarðvík - Valur 60:63

(23:8, 11:25, 20:15, 6:15)

Kraftmikil byrjun Njarðvíkinga lofaði góðu og gerði Njarðvík fyrstu tólf stigin í leiknum. Valur tók þá við sér en heimaliðið hafði þó tögl og hagldir út fyrsta leikhluta og leiddu með fimmtán stigum að honum loknum. Dæmið snerist algerlega við í öðrum leikhluta og Valsarar náðu að minnka muninn í eitt stig fyrir hálfleik (34:33).

Meira jafnræði var á liðunum í þriðja leikhluta en þó voru Njarðvíkingar alltaf skrefinu á undan gestunum. Njarðvík jók muninn í sex stig fyrir átökin í síðasta fjórðungi leiksins.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Njarðvíkingar reyndu tvívegis við þriggja stiga skot í upphafi fjórða leikhluta en hittu úr hvorugri tilrauni. Þetta hleypti Völsurum kapp í kinn og þær minnkuðu muninn í fjögur stig, í næstu sókn misstu Njarðvíkingar frá sér boltann þegar leikmaður Vals stal boltanum og Valur þakkaði fyrir sig með þristi, munurinn eitt stig. Þriðja sókn Njarðvíkinga rann einnig út í sandinn og Valsarar nýttu sér það og komust yfir (54:55).

Eftir að hafa farið illa að ráði sínu í upphafi leikhlutans fóru Njarðvíkingar að ná betri tökum á sínum leik og þær jöfnuðu og komust aftur yfir. Í stöðunni 60:58 og rétt um tvær mínútur eftir snerist allt Val í vil. Dæmt var sóknarbrot á Njarðvík en skömmu síðar stal Aliyah Collier boltanum, brunaði upp en hitti ekki úr skotinu. Valur setti niður þrist og komst yfir. Njarðvík misnotaði enn eitt færið og í kjölfarið fékk Valur tvö vítaskot sem tryggði þeim þriggja stiga sigur, 60:64. Góð vörn Njarðvíkinga í leiknum tók sinn toll og virðist allt bensín hafa klárast á tankinum fyrir síðasta leikhlutann þar sem þær skoruðu ekki nema sex stig.

Alliyah Collier átti góðan leik en hún stal boltanum sex sinnum í kvöld auk þess að gera 24 stig, taka ellefu fráköst og eiga fimm stoðsendingar.

Frammistaða Njarðvíkinga: Aliyah A'taeya Collier 24/11 fráköst/5 stoðsendingar/6 stolnir, Lavína Joao Gomes De Silva 13/12 fráköst, Diane Diéné Oumou 9, Kamilla Sól Viktorsdóttir 8, Helena Rafnsdóttir 4/4 fráköst, Ása Böðvarsdóttir-Taylor 2, Lára Ösp Ásgeirsdóttir 0, Anna Lilja Ásgeirsdóttir 0, Eva María Lúðvíksdóttir 0, Vilborg Jonsdottir 0, Júlia Scheving Steindórsdóttir 0.

Tölfræði leiks.


Anna Ingunn er óhrædd við að láta skotið vaða, hún gerði 27 stig í kvöld.

Keflavík - Grindavík 105:85

(28:17, 23:28, 24:21, 30:19)

Það var minni spenna en meira skorað í Blue-höllinni þegar Keflavík og Grindavík mættust. Keflvíkingar voru meira og minna aðeins á undan Grindvíkingum, náðu ellefu stiga forskoti í fyrsta leikhluta og leiddu með sex stigum í hálfleik.

Grindvíkingar voru alltaf að elta Keflavík sem jók forystu sína í níu stig í þriðja leikhluta. Grindavík gafst ekki upp og náði að minnka muninn snemma í fjórða leikhluta með tveimur þristum en þá var allt úthald búið hjá þeim gulklæddu auk þess að vera komnar í villuvandræði. Eftirleikurinn reyndist Keflvíkingum auðveldur og tuttugu stiga sigur lokaniðurstaðan (85:105).

Af mörgum góðum í Keflavík sýndi Anna Ingunn Svansdóttir gríðarlega góða frammistöðu. Hún var óhrædd við að taka skotið, setti niður fimm þrista og gerði alls 27 stig og átti fimm stoðsendingar. Ólöf Rún Óladóttir var með sextán stig og þær Tunde Kilin og Daniela Wallen sitt hvor fimmtán stigin.

Daniela Wallen var með fimmtán stig, tólf fráköst, níu stoðsendingar og sjö stolna bolta.

Frammistaða Keflvíkinga: Anna Ingunn Svansdóttir 27/5 stoðsendingar, Ólöf Rún Óladóttir 16, Tunde Kilin 15/6 stoðsendingar, Daniela Wallen Morillo 15/12 fráköst/9 stoðsendingar/7 stolnir, Eygló Kristín Óskarsdóttir 10/4 fráköst/3 varin skot, Agnes María Svansdóttir 9, Salbjörg Ragna Sævarsdóttir 7/6 fráköst, Anna Lára Vignisdóttir 3, Katla Rún Garðarsdóttir 3/6 stoðsendingar, Gígja Guðjónsdóttir 0, Hjördís Lilja Traustadóttir 0, Eva María Davíðsdóttir 0.

Þær Robbi Ryan (21) og Edyta Ewa Falenzcyk (4) voru allt í öllu hjá Grindvíkingum og gerðu 55 af 85 stigum liðsins.

Frammistaða Grindvíkinga: Robbi Ryan 34/12 fráköst/6 stoðsendingar, Edyta Ewa Falenzcyk 21/7 fráköst, Thea Ólafía Lucic Jónsdóttir 9, Jenný Geirdal Kjartansdóttir 8/4 fráköst, Natalía Jenný Lucic Jónsdóttir 8, Hulda Björk Ólafsdóttir 3/4 fráköst, Arna Sif Elíasdóttir 2, Aþena Þórdís Ásgeirsdóttir 0, Hekla Eik Nökkvadóttir 0/5 fráköst, Anna Margrét Lucic Jónsdóttir 0, Sædís Gunnarsdóttir 0.

Tölfræði leiks.


Páll Ketilsson, ljósmyndari Víkurfrétta, var á leikjum kvöldsins eins og sjá má í myndasöfnum neðst á síðunni.

Njarðvík - Valur (60:63) | Subway-deild kvenna 20. okt. 2021

Keflavík - Grindavík (105:85) | Subway-deild kvenna 20. okt. 2021