Njarðvík tapaði fyrstu viðureigninni gegn Fjölni
Njarðvík mætti deildarmeisturum Fjölnis í fyrsta leik úrslitakeppni Subway-deildar kvenna í gær og eftir góða byrjun Njarðvíkinga sigu Fjölniskonur fram úr og höfðu að lokum betur. Með sigrinum tók Fjölnir forystu í einvígi liðanna en fyrra liðið til að vinna þrjá leiki fer áfram í úrslitaleikinn.
Fjölnir - Njarðvík 69:62
(26:15, 10:12, 17:16, 16:19)
Njarðvík átti hörkubyrjun og tók tíu stiga forystu (2:12) eftir aðeins þrjár mínútur. Fjölniskonur náðu þá að stoppa áhlaup Njarðvíkinga og snéru dæminu sér í hag, áður en leikhlutinn var allur höfðu þær náð ellefu stiga forystu (26:15). Annar leikhluti var jafnari, heimaliðinu tókst að auka forskot sitt í fimmtán stig (32:17) en Njarðvík náði aðeins að rétta sinn hlut áður en blásið var til hálfleiks. Níu stiga munur, 36:27).
Seinni hálfleikur var jafn og spennandi en þær grænklæddu náðu ekki að vinna upp forskotið sem Fjölnir skapaði sér í fyrsta leikhluta. Nokkrum sinnum munaði fjórum stigum en Fjölnir hleypti Njarðvíkingum aldrei nær en það og hafði að lokum sjö stiga sigur (69:62).